146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:11]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér opinberast kannski grundvallarmunur á milli okkar hv. þingmanns um hvernig við horfum á hlutverk ríkisins. Ég lít ekki svo á að það sé samasemmerki milli þess að ríkið selji áfengi og ríkið veiti heilbrigðisþjónustu. Mér finnst þetta vera tveir gerólíkir hlutir. Mér finnst réttlætingarnar fyrir því að ríkið veiti heilbrigðisþjónustu allt aðrar og miklu betri. Við verðum að skoða hvert svið fyrir sig.

Þetta er ekki til þess gert að auka kostnað heilbrigðiskerfisins en það gæti gert það. Alls konar frelsisréttindi fólks geta aukið kostnað heilbrigðiskerfisins. Neysla á sykri, að keyra bíla, það að fara út úr húsi. Það getur aukið kostnað heilbrigðiskerfisins að leyfa fólki að gera þessa hluti. Frelsið hefur stundum í för með sér ákveðinn fórnarkostnað. Ég tel okkur ekki hafa rétt á að takmarka frelsi fólks á þeim forsendum en ég tel okkur samt hafa skyldu til að reka opinbert heilbrigðiskerfi.

Varðandi 18 ára takmörkin tíðkast þau í nánast öllum Evrópuríkjum og þetta tíðkast á Íslandi varðandi tóbak. Það getur verið einn aðili á svæðinu sem er yfir átján ára aldri, einn kassi þar sem áfengi er og þetta á ekki að vera neitt vandamál. Fólk undir 18 ára aldri á að geta unnið í matvöruverslunum áfram þrátt fyrir þetta, alveg eins og með tóbak.