146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fer að ganga með nafnspjald hérna. Ég þakka hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni fyrir andsvarið og þakka honum fyrir að benda mér á að ég hafi notað rangt orðalag þegar ég sagði að frumvarpið gengi alla leið. Það er alveg rétt hjá honum, það gerir það ekki. Það gengur hins vegar mun lengra en mörg önnur frumvörp sem komið hafa fram af svipuðum toga hér í sal Alþingis áður. Í það var ég að vísa.

Frelsi yfir eigin neyslu, segir hv. þingmaður. Mér finnst ekki hægt að eiga orðastað um þessi mál þegar menn nota svona hugtök eingöngu. Nítján ára unglingur hefur ekki frelsi yfir eigin neyslu. Styður þingmaður að aldurstakmark á áfengi og tóbak verði afnumið? Svo að allir hafi frelsi yfir eigin neyslu? Eða er hann líka í hjarta sér með mörk sem hann vill setja frelsi yfir eigin neyslu? Um það snýst þetta á endanum. Við höfum öll einhver mörk þegar kemur að því hvernig eigi að meðhöndla vímuefnið áfengi. Hv. þingmaður hefur ein mörk, ég hef önnur mörk, en ekki láta eins og annað sjónarmiðið sé frelsissjónarmiðið, hið heilaga frelsi, en hitt sé bara forræðishyggja.

Hvað það varðar að sanna skaðleg áhrif: Já, ef frumvarp þingmanna lýtur að rýmkun á sölu á vímuefni finnst mér það eiginlega vera það minnsta sem þingmenn með sjálfsvirðingu geta gert að meta hver skaðinn af því frumvarpi verður. Fyrir nú utan það: Hvar er kostnaðarmatið með þessu frumvarpi? Er það ekki eitthvað sem þingmenn sem vilja sýna fagleg vinnubrögð ættu að leggja sig í líma við að leggja fram með svona frumvarpi?