146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða hér einn mikilvægan þátt í orkumálum landsins sem eru jarðhitavirkjanir. Þar hafa Íslendingar að mörgu leyti verið í fararbroddi, en komið hefur á daginn eftir því sem þeirri vegferð hefur undið fram að sífellt fleiri vandkvæði hafa komið upp í nýtingu jarðhita á Íslandi.

Við þekkjum umræðuna um brennisteinsvetnismengunina, um skjálftavirknina, um vandræði sem stafa af niðurdælingu o.s.frv., en það sem við heyrum nú í fréttum er að það þurfi 15 nýjar borholur á Hellisheiði til að tryggja gufuöflun fyrir Hellisheiðarvirkjun. Í áætlunum var gert ráð fyrir 7 megavatta falli í afköstum en reyndin varð 20 megavött á ári að meðaltali í falli í afköstum. Þarna erum við í raun og veru að tala um kostnað sem fellur á almenning en ekki á orkukaupandann.

Ég vil vekja athygli á þessu hér vegna þess að það er eitt af því sem er undir í nýrri rammaáætlun sem hæstv. umhverfisráðherra mun væntanlega mæla fyrir á næstu vikum. Þarna er í raun um að ræða breyttar forsendur fyrir nýtingu jarðhita á Íslandi. Ég tel ótækt annað en að við tökum inn þessar breyttu forsendur þegar rætt er um rammaáætlun því að eins og kemur fram hjá öllum sem best þekkja til á Hellisheiði var þar farið allt of hratt af stað. Þegar við förum of geyst kemur það niður á heildarhagsmunum almennings og náttúrunnar. Við því megum við ekki eina ferðina enn. Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að við eigum hér myndarlega, framsýna orkustefnu fyrir Ísland áður en ráðist verður í það eina ferðina enn að ákveða nýtingu einstakra kosta í jarðhita.


Efnisorð er vísa í ræðuna