146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[12:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í seinna andsvari að koma inn á þau sjónarmið sem fram komu í seinna andsvari hv. þingmanns rétt áðan. Í fyrra andsvari langar mig að bera undir hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson ákveðin orðaskipti sem áttu sér stað í andsvörum við 1. umr. um málið þar sem samflokksmaður hv. þingmanns, hv. Jón Steindór Valdimarsson, spurði hæstv. dómsmálaráðherra að eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hér er verið að fjalla um hæfisreglur og skipan dómara í hinn nýja Landsrétt. Af því tilefni langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki sé ástæða til að setja sérstök ákvæði um skipan dómara sem feli í sér að auk almennra hæfisskilyrða skuli sérstaklega horft til sjónarmiða um jafnrétti kynjanna. Tilgangurinn væri auðvitað að vinna markvisst að því að jafna kynjahlutföll meðal dómara. Hér er nýr dómstóll í fæðingu, 15 dómarar sem koma þar til starfa. Manni sýnist að hér sé einstakt tækifæri til að ná jöfnuði þegar þessi nýi dómstóll verður settur á laggirnar.“

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði, með leyfi forseta:

„Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að skipan hins nýja dómstóls takist vel til með hliðsjón af alls kyns sjónarmiðum.“ — Þá er hún ekki að taka um kynjasjónarmið, nota bene.

„Það er mjög mikilvægt að til starfa þar veljist fólk með ólíkan bakgrunn úr heimi lögfræðinnar, ekki bara núverandi embættisdómarar eða menn sem hafa sinnt dómstörfum heldur líka alls kyns öðrum lögfræðistörfum“, og svo framvegis.

Svo segir hæstv. dómsmálaráðherra:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni. Ég hef fulla trú á því að konur jafnt sem karlar uppfylli öll þau hæfisskilyrði sem eðlilegt er að leggja til grundvallar við skipan dómara.“

Telur hv. þingmaður að með þennan dómsmálaráðherra í embætti sé það virkilega nógu öruggt að við setjum það (Forseti hringir.) einungis í nefndarálit en ekki í lagatexta að kynjasjónarmiðum verði fylgt?