146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

æskulýðsmál og samfélagsþátttaka ungs fólks á Íslandi.

[12:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ábyrgðartilfinning og þróun hennar er mikilvægur þáttur í þroskaferli ungmenna. Hluti þess að öðlast ábyrgðartilfinningu og verða fær um axla ábyrgð á gjörðum sínum er að einstaklingurinn hafi tækifæri til að taka ákvarðanir sem máli skipta þannig að orsakasamhengið milli ákvörðunar og afleiðinga hennar verði ljóst. Lýðræðið felur það einnig í sér að geta átt hlutdeild í ákvörðunum sem varða miklu samfélagið og einstaklingana sem það byggja og lýðræðið felur einnig í sér að þau sem fara ákvörðunarvald, hinir kjörnu fulltrúar, gera það í umboði almennings. Við sem höfum verið kosin til að taka ákvarðanir um samfélagsmálefni sækjum vald okkar og umboð til kjósenda. Það orsakasamhengi ætti að vera ljóst en það er eins og það hverfi stundum sjónum fólks, ekki síst hinna yngri. Það er áhyggjuefni að kosningaþátttaka ungs fólks hefur farið dvínandi. Við hljótum að spyrja okkur hvað valdi því að vel upplýst og dugandi fólk gefi frá sér tækifærin til að hafa áhrif á samfélag sitt með því að taka ekki þátt í kosningum til þjóðþinga og sveitarstjórna.

Við vitum vel að ungt fólk í samtímanum er flest hvert vel upplýst og alls ekki haldið sinnuleysi um eigin hag. Líklega er hin unga kynslóð á Vesturlöndum betur að sér og færari í því að afla sér upplýsinga en nokkur þeirra kynslóða sem komu á undan. Við vitum líka að ungt fólk lætur til sín taka á ýmsum sviðum samfélagsins, efnir til mótmæla eða lýsir yfir stuðningi við ýmis mál eftir atvikum. Ungt fólk er ekki sinnulaust eða einhver reköld í samtímanum, því er öðru nær.

En hvað veldur því þá að ungt fólk færist frá hefðbundinni stjórnmálaþátttöku? Vitanlega er ekki auðvelt að svara því. Það er hugsanlegt að starf hefðbundinna stjórnmálaflokka sé þannig að það höfði ekki til ungs fólks og að því finnist jafnvel að því sé þar ofaukið. Það hlýtur líka að koma til álita í þessu sambandi hversu mikið traust almenningur, jafnt ungir sem aldnir, hefur á stjórnmálum og stjórnkerfinu.

Hægt er að fara mörgum orðum um kosningarrétt ungmenna, tregðu þeirra til að nota kosningarrétt sinn og skýringarnar á því að svo margt fólk nýtir sér ekki þennan grundvallarrétt lýðræðisins. En það væri líka hægt að hrinda af stað könnun meðal ungs fólks, t.d. í efstu bekkjum grunnskólans og í framhaldsskólanum, um viðhorf þeirra til þess að ungmenni á aldrinum 16–18 ára fái almennan kosningarrétt. Stjórnvöld gerðu rétt í að skipa nefnd um breytingu á kosningalögum sem hefur það að markmiði að kanna forsendur og fýsileika þess að veita ungmennum á þessu aldurskeiði kosningarrétt (Forseti hringir.) og sem séð gæti um að gerðar yrðu kannanir á hug ungs fólks til þess að öðlast kosningarrétt áður en þeirri breytingu yrði hrint í framkvæmd.