146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[13:44]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við erum stödd í 2. umr. um stjórnarfrumvarp um nýtt millidómstig, Landsrétt, og aðsetur hans, en ekki síst um valnefnd dómaraefna. Við erum stödd í þeim dapurlega veruleika að allsherjar- og menntamálanefnd klofnar í afstöðu sinni til einnar setningar, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“

Fyrirgefðu, frú forseti, ég þarf aðeins að ná andanum vegna þess að ég var að hlaupa hérna milli hæða.

(Forseti (NicM): Þú hefur 19 mínútur.)

Afsakið. Ég ætla að fá að endurtaka, með leyfi forseta, þessa gullvægu setningu sem allsherjar- og menntamálanefnd klofnaði í afstöðu sinni til:

„Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“

Það er nefnilega það. Hér er um að ræða setningu sem snýst um að hnykkja á lögum um jafnan rétt kynjanna og að þeim sé fylgt eftir. Þetta er ekki róttæk setning sem kveður á um allsherjarbyltingu, nei, hér er um að ræða setningu sem kveður á um að fylgja jafnréttislögum.

Til upprifjunar er markmið laga um jafnan rétt kvenna og karla það að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í þessari umræðu hefur verið spurt af hv. þingmönnum hvort full ástæða sé til þess að hafa þessa klausu inni. Svarið er já, enda hefur það verið svo að við skipan dómara hér á landi hefur því miður hallað mjög á konur. Dæmi um það er að það var ekki fyrr en árið 1986 að fyrsta konan, Guðrún Erlendsdóttir, var skipuð hæstaréttardómari. Og nú 31 ári síðar er staðan í Hæstarétti þannig að tvær konur skipa þar dómarastöðu en níu karlar. Hvað kallast það annað en kynjakvóti í þágu karla, frú forseti, þegar æðsta dómsvald í landinu er skipað í allri sinni sögu að miklum meiri hluta körlum? Og að Hæstiréttur telji sig að auki undanskilinn jafnréttislögum? Það er ekkert annað en kynjakvóti karla sem bitnar á konum og er ekki sæmandi í siðuðu samfélagi á borð við okkar.

Já, það er nefnilega full ástæða til þess að hafa jafn sjálfsagða klausu og um ræðir inn í lagatextanum um valnefnd þegar varðar nýtt dómstig. Ég er sammála því sem fram kemur í áliti minni hlutans að það sé ekki nægilegt að fram komi í nefndaráliti að líta þurfi til jafnréttislaga. Það er full ástæða og fullkomlega eðlileg krafa að hnykkja á því í lagatextanum sjálfum. Því að breytingar gerast ekki af sjálfu sér í þágu jafnréttis, þó að bæði hv. þm. Brynjar Níelsson og hv. þm. og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi komið þeirri skoðun á framfæri í 1. umr. um frumvarpið í síðustu viku. Báðir hv. þingmenn telja nefnilega að breytingar gerist bara af sjálfu sér, að það þurfi ekki að koma á neinum lögum og reglum til þess að knýja fram einhverjar breytingar til hins betra heldur gerist þær af sjálfu sér. (BN: Það er í lögum núna.) Akkúrat. Og að við þurfum bara að bíða róleg og stillt eftir því að hlutirnir breytist.

Eins og kemur fram í minnihlutaálitinu þarf lagasetningu til að koma á og rétta við ójafnrétti. Það þarf kynjakvóta í þágu kvenna. Það þarf alvörulög sem eru virt af hálfu grunnstofnana íslensks samfélags. Ekki síst þegar kemur að dómskerfinu og réttarkerfinu sem á svo sannarlega að þjóna öllum þegnum samfélagsins. Til marks um það beindi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum þeim tilmælum til íslenska ríkisins að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Og það er svo merkilegt að sú ágæta og virta nefnd lagði sérstaka áherslu á að gripið yrði til sérstakra aðgerða, jafnvel kynjakvóta, til að fjölga konum hratt og hraðar í dómskerfinu en raun ber vitni. Svo slæmur er kynjahallinn í dómskerfinu að nefnd Sameinuðu þjóðanna leggur til að hér verði settur kynjakvóti og leggur ríka áherslu á að hér á landi sé skipan dómara fjölbreyttur en ekki einsleitur hópur manna.

Undir þetta sjónarmið er tekið í ítarlegri og vandaðri skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur sem birtist í desember 2014 og nefnist Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum. Um er að ræða viðamikla rannsókn sem telur heilar 116 bls. að mig minnir og var nú ástæðan fyrir því að ég tepptist í prentaranum, frú forseti. Þessi rannsókn er ákaflega þörf og fagmannlega unnin. Í lokaorðum rannsóknarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Markmið þessarar rannsóknar var að kortleggja viðhorf þeirra sem koma að meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og hvernig þeir telja að bæta megi meðferð málanna í ljósi þess að lágt ákæru- og sakfellingarhlutfall einkennir brotaflokkinn.“

Ein úrbótatillagan sem höfundur skýrslunnar mælir með er að auka símenntunartækifæri dómara og tryggja að reynsluheimur kynjanna endurspeglist í fjölskipuðum dómum.

Hér er um að ræða tvær skýrslur um réttarvörslu- og dómskerfið á Íslandi sem báðar bera að sama brunni: Að kynjasjónarmiðin verða að vera tekin inn af fullum þunga til að tryggja réttlátari meðferð mála innan dómskerfisins. Þetta er ekki síður brýnt þegar höfð eru í huga ummæli nýskipaðs dómsmálaráðherra hér í 1. umr. um þetta frumvarp sem vitna um algera andstöðu við að halda til haga kynjasjónarmiðum við val á dómurum. Með leyfi forseta ætla ég að rifja þessi ummæli upp. Í andsvari dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, við fyrirspurn hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar, sagði hæstv. ráðherra:

„Tel ég ekki til velfarnaðar fallið almennt að hugsa skipun í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf eru með þeim hætti sem fyrirspyrjandi er að kalla eftir að mögulega sé gert, ef ég skil hann rétt, að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða.“

Þetta er hennar skoðun. Þetta er skoðun hæstv. ráðherra dómsmála hér á Íslandi og það þrátt fyrir að sjálfar Sameinuðu þjóðirnar hafi gert athugasemdir við kynjahlutfallið hér á landi.

Annað svar hennar hljóðaði svo í þessari umræðu:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni.“

Það er nefnilega það. Konur geta nefnilega aldrei verið hæfar. Það er ekki hægt að velja þær á grundvelli þess.

En svona hljóðar skoðun hæstv. dómsmálaráðherra. Það er miður því að fordómar gegn konum í dómskerfinu er djúpstæður vandi og svo sannarlega til staðar, því miður. Við getum ekki leyft okkur að vona hið besta um að inngróin karllæg sjónarmið innan dómskerfisins, svo sem eins og um hæfnismat á dómaraumsækjendum, hverfi bara upp í loftið án nokkurra skýringa og leiðréttist af sjálfu sér. Hunsun dómsvaldsins á jafnréttislögum eins og í tilviki Hæstaréttar og því miður í tilviki þeirra sjónarmiða sem dómsmálaráðherra hafði uppi í 1. umr. um þetta tiltekna frumvarp og sú staðreynd að fordómar gegn konum hafa liðist innan dómskerfisins svo árum skiptir er birtingarmynd óvandaðra stjórnarhátta þar sem geðþótti og misbeiting opinbers valds er í boði í innviðum dómsvaldsins.

Þess vegna er nauðsynlegt að löggjafinn taki af skarið og marki skýran tón en ekki bara í nefndaráliti eins og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar vildi gera. Því vil ég taka hjartanlega undir álit minni hlutans í þessum klofningi innan nefndarinnar. Ég tel að það sé til velfarnaðar fyrir kynjasjónarmiðin innan dómskerfisins og ég tel það ekki geta verið mjög róttæka tillögu þegar lagt er til að ráðherra skuli gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt þegar kemur að valnefndum dómara í nýtt dómstig. Nú er lag að byrja frá grunni en ekki að snúa einhverju þungu olíuskipi við. Nú er lag að byrja frá grunni, hafa þessar reglur skýrar, ekki í einhverju nefndaráliti. Það er ekki nægjanlegt. Hnykkjum á þeirri afstöðu í lagatextanum sjálfum. Það er enginn ósigur. Það er framför og það er réttsýnt viðhorf. Það er eitthvað sem við eigum að beita okkur fyrir vegna þess að reynslan sýnir okkur svart á hvítu að kynjasjónarmiðin verða að vera bundin í lög en ekki vera í nefndarálitum og ekki til hliðar og ekki til viðmiðunar. Við verðum að hafa þau skrifuð inn í lögin.

Þess vegna styð ég minnihlutaálitið, en vil hnykkja á því að mér finnst dapurlegt að nefndin hafi klofnað í afstöðu sinni þegar um ræðir svo sjálfsagðan hlut eins og að láta þessi sjálfsögðu orð inn í lagatextann en ekki nefndarálitið. Mér finnst það miður, finnst það dapurlegt. Ég hefði svo sannarlega viljað óska þess að sátt hefði náðst um þetta, núna þegar við erum að byrja á grunni og stofna nýtt millidómstig og setja okkur reglur um valnefndina og hvernig sé skipað í hana og hvernig hún eigi að starfa. Við getum svo sannarlega gert betur.