146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir andsvar hans. Ég vil kannski hnykkja á því við hv. þingmann að sú valnefnd sem hv. þingmaður er að vísa í er ekki sú valnefnd sem er verið að fjalla um hér, það er því valnefndin sem er ekki einu sinni komin til og við höfum verið að fjalla um hérna í þessu frumvarpi. Þannig að þegar við erum að tala um valnefndina þá erum við að tala um gömlu valnefndina, ekki þessa nýju sem hér um ræðir.

Ég spyr þá líka á móti: Verðum við ekki í ljósi reynslunnar og ljósi sögunnar að tryggja með öllum hætti jöfn kynjasjónarmið, að þau séu í hávegum höfð? Af því að við höfum dæmi um það að jafnréttislögin hafa ekki verið virt, því miður. Kannski þurfum við að fara í að endurskoða jafnréttislögin. Kannski þurfum við að fara í að endurskoða þau og bæta við eftirliti og viðurlögum o.s.frv. til að styrkja þau. En eigum við þá ekki bara að sameinast um það, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, að tryggja að ekki halli á konur í nýju dómstigi og sér í lagi þegar nýr dómsmálaráðherra talar ekki með eins afdráttarlausum hætti um kynjasjónarmiðin og nauðsyn þess að halda þeim á lofti þegar kemur að nýju millidómstigi? Ég held og ég er þess þenkjandi og trúi því að hv. þm. Vilhjálmur Árnason sé sammála mér í því að tryggja þurfi þetta með enn skýrari hætti.