146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Í þessum ræðustól áðan heyrðist að umrædd breytingartillaga minni hluta nefndarinnar væri tilgangslaus, væri táknræn. Ég lít svo á að þetta sé ekki táknræn aðgerð á meðan svo háttar til að í samfélaginu hallar enn á konur í valdastöðum. (Gripið fram í.) Í dómstólum. Já, algerlega. Ég lít svo á að þetta sé ekki táknrænt meðan hallar á konur í valdastöðum, ekki aðeins innan dómskerfisins heldur hér um bil alls staðar í samfélaginu, hvort sem litið er til stjórnunarstaða í fyrirtækjum eða annað. Þetta er ekki táknrænt.

Þetta væri táknrænt ef staðan væri jöfn og hefði verið jöfn mjög lengi og ekki væri hætta á að sá árangur sem hefur þó náðst, sem m.a. endurspeglast í því að á þinginu eru svo til jöfn hlutföll karla og kvenna í dag, gengi til baka. En sú hætta er enn fyrir hendi. Samfélagið okkar er hreinlega ekki komið á þann stað að hið karllæga vald gangi ekki til baka ef ekki verður vel að gáð.

Ég segi því algerlega nei. Þetta er ekki táknræn aðgerð. Þetta er því miður nauðsynleg aðgerð. Við erum bara ekki komin lengra en svo. Það er hreinlega þannig að í dag er Ísland eitt af fáum löndum sem er vel statt í þessum málaflokki í heiminum og við þurfum að halda áfram og gera töluvert betur. En við þurfum líka að halda áfram að sýna gott fordæmi, alveg þangað til öll lönd heims eru komin á þann stað þar sem fullkomið jafnrétti ríkir milli karla og kvenna og reyndar allra annarra í samfélaginu. Við náum því ekki með því að bíða og vona að einhvern veginn muni fyrir slysni verða jöfn kynjahlutföll í þessum nýja dómstóli. Ég á ekki von á öðru þegar litið er eingöngu til reynslu, sérstaklega í ljósi þess sem hv. þm. Brynjar Níelsson sagði áðan um reynsluna í lögfræðistéttinni, þ.e. að konur í lögfræðistétt væru færri og kannski reynsluminni að einhverju leyti, en að þetta verði enn einn karllægi dómstóllinn. Ég trúi því ekki, ekki síst þegar tekið er tillit til þeirra skoðana sem hæstv. ráðherra Sigríður Á. Andersen hefur viðrað í fjölmiðlum og á Alþingi og víða annars staðar, að tekið verði nægilegt tillit til kynjasjónarmiða.

Þetta er ekki flókið mál. Við þurfum þessa litlu setningu inn í lögin núna, ekki vegna þess að þetta er táknræn birtingarmynd þess sem væri æðislegt heldur vegna þess að það er enn þá ójafnrétti til staðar í samfélaginu. Við munum ekki uppræta það með því að bíða og vona. Ég held í alvöru talað að sá dagur muni einhvern tíma koma að við þurfum ekki á svona ákvæðum að halda. Ég hlakka til þess dags. Sá dagur verður frábær, en sá dagur rennur ekki upp á næstunni. Enn sem komið er er hætta á því að árangurinn sem hefur náðst gangi til baka og við stöndum í nákvæmlega sömu sporum og við höfum alltaf verið í þar sem hallar á annað kynið. Það er komið nóg af því.