146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[14:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ræðumanni, hv. þm. Smára McCarthy, fyrir ræðuna. Mig langaði til að spyrja hann nokkurra spurninga. Hv. þm. Jóna Sólveig Elínardóttir sagði áðan að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri sú framsæknasta í sögunni og bar því til vitnis áherslur ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál, en í yfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar eru alls fjórar setningar um jafnréttismál, sem eru góðar og gildar. Til að hrósa þeirri ríkisstjórn sem ég studdi, ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar, voru sextán yfirlýsingar um jafnréttismál í þeim stjórnarsáttmála. Ef við færum nú í einhverja keppni um (Gripið fram í.) framsæknustu ríkisstjórnina væri ágætt að hafa það á hreinu.

En ég er hér í andsvari við hv. þm. Smára McCarthy og langar að spyrja þingmanninn hvort þau orð dómsmálaráðherrans sem féllu við 1. umr. um það frumvarp sem hér um ræðir, rími við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þ.e. orð hennar um að hún hallist að því að lög sem gildi almennt í landinu gildi auðvitað um öll svið samfélagsins. Þá á hún við jafnréttislögin. Og enn fremur varðandi ummæli hennar um að hún sé ekki talsmaður þess að menn bindi í lög að velja eigi einstaklinga eftir kyni frekar en hæfni. Og jafnframt þau ummæli hæstv. dómsmálaráðherra að það sé ekki til velfarnaðar fallið að litið sé sérstaklega til kynjasjónarmiða þegar verið sé að hugsa skipun í jafn mikilvæg embætti og dómarastörf. Telur hv. þingmaður þessi orð ráðherrans ríma við samstarfsyfirlýsingu þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd?