146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hennar. Ég vek athygli á því að ég las tillöguna ekki alla upp áðan. Það sem ég er að vísa til, af því að hv. þingmaður vísaði í sjálfbæra þróun og umhverfismálin, er að á bls. 2 kemur fram, með leyfi forseta:

„Áréttuð er skuldbinding ríkjanna um að stefna að sjálfbærri þróun sem og viðurkenning þeirra á mikilvægi samræmis í stefnumálum á sviðum viðskipta, umhverfis og vinnu.“

Svo er ítrekaður vilji samningsaðila til að beita ákvæðum samningsins í samræmi við markmið um vernd umhverfisins og hagkvæma auðlindanýtingu.

Svo er ýmislegt annað sem tengist ekkert ósvipuðum málum. Varðandi það hvort verið sé að vísa í stýringu á vörum sem skortur er á, þá er ekki tekið tillit til þess í þessum samningum, enda vitum við ekki hvernig svona mál þróast.

Ég vonast til þess að einhverjir útflytjendur hér sjái sóknarfæri í þessu og viðskiptatækifæri. Þeir gera það ekki nema þeir séu með einhverjar vörur sem þeir hafa að bjóða þarna. En á sama tíma og ekki síst vonast ég til þess að þetta ýti undir efnahag Georgíu og geri þá sjálfbæra, því að þeir eru að mörgu leyti í mjög erfiðri stöðu. Mér finnst það vera siðferðilega skylda okkar sem segjumst vilja hjálpa fátækari ríkjum að ekki bara tala um það. Með fullri virðingu fyrir þróunaraðstoð, sem er auðvitað mjög mikilvæg, þá gerir hún ekkert ef við hjálpum ekki viðkomandi ríkjum og fólkinu í þessum löndum til að verða efnahagslega sjálfstæð og verða sterkari en í dag. Við gerum það ekki nema opna markaði okkar. Vonandi munu einhverjir aðilar í Georgíu geta selt einhverjar vörur hingað. Hverjar þær eru hef ég ekki hugmynd um, enda þekkjum við ekki leiðir fólksins og markaðarins og munum aldrei geta séð það almennilega fyrir.