146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breytingar á námslánakerfinu.

[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Spurt er um málefni lánasjóðsins og afdrif frumvarps sem þingið tókst á um síðasta haust. Réttilega, eins og hv. þingmaður bendir á, var mikill ágreiningur um málið, það var ýmislegt held ég sem skapaði hann og tafði framgang frumvarpsins, m.a. kosningar og síðar þinglok rétt fyrir jól. Spurt er um fyrirætlanir mínar í þessum efnum af því að þess sér ekki stað í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið, það sé þunnur þrettándi sem það vissulega er. Ég setti þrjú mál á þingmálaskrána, en ástæðan fyrir því að þetta mál er ekki þar inni er einfaldlega sú að það er það mikið að vöxtum að ég þarf langan tíma til að fara ofan í það og í gegnum alla umræðuna sem um það var sl. haust, sömuleiðis að reyna að búa þannig um hnútana að meiri sátt náist í þinginu og meðal hagsmunaaðila um málið en raun varð á síðasta vetur. Ég held að það sé til mjög mikils að vinna í þeim efnum.

Það er margt gott í þessu máli sem ég tel að við getum alveg unnið með áfram og síðan er klárlega hægt að reyna að ná betri sátt um þau ágreiningsefni sem komu upp í meðferð þingsins með málið síðasta vetur. Vilji minn stendur til þess að miða vinnu ráðuneytisins við það að málið komi fram á hausti komanda, á haustþinginu. Það mun þá ráðast af því hvernig samstarfið og samráðið um vinnslu þess muni ganga nú í sumar í hvaða búningi það kemur fyrir þingið þegar þingmálaskrá verður endurnýjuð og þetta mál verður vonandi þar á meðal annarra fleiri góðra mála.