146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er lögð fram að gefnu og alvarlegu tilefni, óþolandi og varasamri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands og reyndar fleiri háskóla. Það er forvitnilegt að bera hana saman við frekar digur orð um mikilvægi skólans og menntunar á hátíðarstundum og í kosningastefnuskrá flokka sem enn vanrækja þá skyldu að koma til móts við grunnóskir skólans um brýnar úrbætur í fjármálum hans. Það sama á við, eins og ég sagði áðan, um aðra háskóla landsins.

Hér ætla ég að nota stöðu jarðvísindadeildar sem ég ber taugar til sem hlut fyrir háskólaheildina og upplýsa að ekki er einu sinni hægt að ráða í stöður sem losna nú þegar kennarar hætta fyrir aldurs sakir. Með leyfi forseta les ég úr nýlegum Fréttatíma orð Ólafs Ingólfssonar jarðfræðiprófessors:

„Niðurskurðurinn verður erfiður en við skulum hafa það alveg á hreinu að Háskóli Íslands hefur verið rekin af vanefnum í mörg ár.“

Og síðar:

„Hér á jarðvísindadeild þurfum við að spara tugi milljóna og þá er helst hægt að skera niður þjónustu sem veitt er nemendum, því miður. Þrengt verður að námskeiðum með ýmsum hætti og þau í einhverjum tilfellum lögð niður, einkum í framhaldsnámi. Tímum verður fækkað, dregið úr vettvangsvinnu og slíku.“

Ólafur segir að sumar greinar verði tæplega kenndar bara af kennslubókum, nemendur þurfi að reyna hlutina og upplifa sjálfir. Það þýðir t.d. ekki að kenna fólki að synda með því að láta það fá bók.

Þessi orð eru lýsandi fyrir stöðu háskólanna.

Ólafur minnir líka á að háskólinn hefur bent á að heildarframlög til hvers ársnema þyrftu að tvöfaldast til að ná sambærilegum meðaltalsframlögum á Norðurlöndum og öll vitum við hve langt er í markmið OECD í fjármögnun háskólanáms á Íslandi. Ójöfnuður hvað varðar fjarkennslutilboð blasir við, einkum utan höfuðborgarsvæðisins og einkum í raungreinum. Háskólar utan höfuðborgarsvæðisins berjast í bökkum. Sömuleiðis er of mikið vinnuálag á föstum kennurum háskólanna. Nemendur kvarta, kennarar kvarta. Vegna alls þessa koma fyrirspurnir mínar í fjórum liðum til hæstv. ráðherra um aukin fjárframlög til Háskóla Íslands og til annarra háskóla.