146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ég svari öllu þessu á tveimur mínútum. Það hefði verið ágætt fyrir hv. þingmann að lesa þá kannski allt sem ég hafði skrifað um þetta mál á sínum tíma. Stóra greinin mín sem heitir Guðmundar- og Geirfinnsmálið í hnotskurn var um sönnunarfærsluna í málinu. Tilefni þeirrar greinar er auðvitað það að umræðan í samfélaginu var mjög rugluð, umræðan var um að engin sönnunargögn væru önnur en framburður sakborninga sjálfra. Það var umræða um að þessar játningar hefðu verið fengnar með langvarandi harðræði, gæsluvarðhaldi árum saman. Þetta var allt saman rangt og ég var bara að reyna að leiðrétta þá umræðu. Síðan skrifaði ég aðra grein um endurupptökubeiðnina sjálfa, sem hv. þingmaður hefur greinilega ekki lesið eða veit ekki um, um lagaskilyrðin fyrir henni. Þær greinar eru um lögfræðileg málefni, þær eldast mjög vel. Ég verð að segja að mér finnst þær bara alveg frábærar. [Hlátur í þingsal.] Ég held að þeir sem hafa lært mannréttindalögfræði í Hollandi ættu að lesa þessar greinar allar því að þær eru mjög gott kennsluefni um lögfræði akkúrat í þessu.

Ég hef hins vegar aldrei haldið því fram að þessir dómar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, að sökin hafi verið sönnuð svo enginn vafi sé á. Ég hef aldrei haldið því fram, enda þekkti ég það mál ekki, var ekki í því máli, en ég hef gagnrýnt mörg önnur mál sem ég hef verið sjálfur í og þekki öll gögn. Í þessu máli er ég hreinlega að segja að þeir sem dæmdu það dæmdu þetta eftir þágildandi lögum, mátu sönnunina með þessum hætti og eru ekki yfir gagnrýni hafnir, sannarlega ekki, sérstaklega ekki þegar líkin finnast ekki einu sinni. (Forseti hringir.) Ég skora á lögmanninn að lesa allar þessar greinar og ég held að hún gæti lært mikið á því.


Efnisorð er vísa í ræðuna