146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir mjög góða og skemmtilega ræðu. Það er rétt sem fram kemur í ræðu hv. þingmanns að það er djúpstæður ágreiningur um þessi mál innan Alþingis og í þjóðfélaginu öllu. Í umræðunni, sem verið hefur afar góð, og undanfarna daga, þegar við höfum verið að ræða þetta mál, hefur mjög ólík hugmyndafræði komið fram sem snýr að þessari umfjöllun og er mjög mikilvægt að við eigum þetta samtal. Ég er sammála honum í því að það er skrýtið að heyra að við sem vitnum í orð fagaðila í heilbrigðis- og félagsvísindum og vísum í rannsóknir stundum einhvern hræðsluáróður. Enn skringilegra er að heyra það í ræðum ákveðinna hv. þingmanna að lítið sé gefið fyrir tölfræði í heilbrigðisvísindum og félagsvísindum um þessi mál.

Mig langar að spyrja hv. þm. Andrés Inga Jónsson hvort hann hafi skoðað umsagnir um málin frá fyrri kjörtímabilum þegar þessi mál hafa verið lögð fram. Hefur hann skoðað niðurstöður fagfólks í félags- og heilbrigðisvísindum og umsagnir frá verslun og þjónustu og séð þau ólíku sjónarmið sem fram koma í þeim umsögnum? Hefur hann velt því fyrir sér þegar hann hefur skoðað þetta hverra hagsmuna sé verið að gæta eða hvort þarna sé bara um ólíka hugmyndafræði að ræða milli ólíkra umsagnahópa varðandi málið frá fyrri kjörtímabilum?