146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ætli það sé nú þannig að áhrif bjórsins á Íslandi hafi verið til góðs? Þá skulum við hugsa okkur fjölgun ölvunaraksturstilfella, fjölgun slysa — ég veit að það tengist líka öðrum þáttum, ofbeldi á heimilum, ótal hluti sem við getum alveg ímyndað okkur eða talið tengjast aukinni áfengisneyslu, hvort sem það er í lítrum talið eða á einhvern annan máta. Ég held að varnaðarorðin í gamla daga, ef við orðum það svo, hafi ekki verið röng. Svo sitjum við uppi með bjórinn og mörgum okkar þykir hann sennilega góður. En við sitjum líka uppi með afleiðingarnar. Ég er alveg sannfærður um að hefði bjór aldrei verið leyfður er hreint ekkert víst að við sætum uppi með sömu samfélagsmynd og við sitjum uppi með núna. Málið snýst jú um rannsóknir eins og t.d. þær sem ég var að veifa hér áðan, og 87 aðrar rannsóknir í 12 löndum, sem sýna tengsl á milli vaxandi ofbeldis og aðgengis að áfengi. Telur hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér það bara vera í lagi? Eigum við að fara eftir þeim eða eigum við að hunsa þær?

Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi mikið álit á vísindarannsóknum og hafi einhverja sérstaka heimspeki í sambandi við túlkun á þeim, en fyrir mér eru þetta staðreyndir alveg eins og um vaxandi meðalhita jarðar. Annaðhvort bregðumst við við því og trúum þessu eða ekki.