146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er gott að við erum sammála um að það er betra að leiða þetta mál til lykta í sátt. Eins og ég kom að áðan undir lok andsvarsins er ég hræddur um að ef menn ætla sífellt að setja undir sig hausinn, aldrei að horfa á möguleika til að ná samstöðu, til að ná lágmarkssátt sem getur sameinað sjónarmið alls landsins, þá endi það með því að flugvöllurinn fari engu að síður og engin lausn verði komin og við sitjum uppi með miklu verra samgöngukerfi og miklu óöruggara. Ég held að við þurfum að vera skynsöm í þessu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju beitti síðasta ríkisstjórn sér ekki fyrir því að leysa þetta mál áður en hæstaréttardómur féll? Af hverju beitti síðasta ríkisstjórn sér ekki fyrir því þegar það lá fyrir að dómur væri fallinn að það yrði opnuð sams konar braut í Keflavík? Þótt hún gegndi að vísu ekki jafn mikilvægu hlutverki hefði það a.m.k. verið plástur á sárið. Af hverju var ekkert gert?