146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[22:49]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir andsvarið. Þetta sem við leggjum hér fram er neyðarráðstöfun til að opna aftur neyðarbrautina sem er (Gripið fram í.)gríðarlega mikilvæg í allri þjónustu við landsbyggðina. Við flestöll hér inni þekkjum örugglega einhvern sem hefur lent í því að þurfa að fara í sjúkraflug á þessu landi. Við þurfum að hafa þá hluti í lagi.

Ég treysti mér ekki, ef ég á að vera alveg heiðarleg, til að rekja þá sögu af hverju hlutirnir fóru svona á síðasta kjörtímabili. Engu að síður er þetta staðan sem við erum í núna og við viljum reyna að koma málinu áfram. Auðvitað þurfum við að koma þessum málum öllum í ásættanlegt horf fyrir landið allt. Þá er ég líka að tala um sjúkraflug og þjónustu við fólkið úti um landið.

Sú staða er uppi núna að sérfræðingar á landinu þjónusta um allt land, nota flugið, fljúga norður til Akureyrar. Fyrir skömmu síðan átti ég samtal við sérfræðing sem undanfarin sjö ár hefur flogið 250 sinnum til Akureyrar til að sinna sérfræðingshlutverki sínu þar. Það er mjög virðingarvert og gott og við megum vera þakklát fyrir það, en þetta væri ekki framkvæmanlegt ef flugvöllurinn væri ekki í Reykjavík. Ef það þyrfti alltaf að keyra til Akureyrar væri ferðatíminn orðinn of langur, það mundi flækja þetta og veikja heilbrigðiskerfi okkar enn meira. Við verðum einhvern veginn að ná sátt í málinu og vinna það áfram. Það vona ég svo sannarlega að við berum gæfu til að gera.