146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, megnið af ævi minni hef ég búið fjarri Reykjavík, úti á landi. Mér er það algjörlega ljóst hversu mikilvægt það er fyrir jafna búsetu, öryggi og annað að hér sér öflugt innanlandsflug og góðar samgöngur við höfuðborgina. Það er líka deginum ljósara að í þessu fámenna ríki sem við búum í er gríðarlega mikilvægt að gott aðgengi sé fyrir sjúkraflug. Glaður mundi ég vilja styðja lausn eins og hér birtist ef hún væri til þess fallin að skapa frið, ef hún væri líkleg til að standast stjórnarskrá og leiða málið til lykta, en því miður held ég að svo sé ekki.

Ég hef staðið í þessari umræðu í mörg ár í sveitarstjórnum. Ég hef fengið á mig níð og fengið á mig skrif og því hefur verið haldið fram að ég sé einhvers konar drottinssvikari, föðurlandssvikari fyrir að hafa önnur sjónarmið í málinu til lausnar en almennt hefur verið haldið á lofti og kannski eru vinsælust þar sem ég bý. Ástæðan fyrir því að ég hef haft þau sjónarmið snýst hins vegar um að ég tel að líklegra sé að við náum lendingu í málinu og lausn í málinu ef við beitum sáttum. Ég trúi því að mannkyn sem er búið að koma sér til tunglsins geti fundið ásættanlega lausn á tæknilegu vandamáli eins og því hvar á að lenda eða hvernig á að flytja sjúklinga, vegna þess að þó svo að flutningar sjúkrabíls að sjúkrahúsi eða flugið geti lengst um nokkrar mínútur með nýrri staðsetningu þá höfum við aðrar leiðir til að minnka heildartímann sem það tekur frá því að maður slasast og þangað til hann er kominn í öruggar hendur inn á gott sjúkrahús. Það skiptir ekki endilega máli á hvorum endanum það er stytt, það getur meira að segja verið betra að gera það sem fyrst.

Þetta mál sem um ræðir á sér nefnilega býsna langan aðdraganda. Hér var aðeins rætt um samkomulagið sem var undirritað 25. október 2013. Við skulum staldra við það. Þar ætla ég að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Pawel Bartoszek lauk máli sínu. Þessir tveir samningar voru undirritaðir á sama klukkutímanum, á sama staðnum, með sama fólk viðstatt. Af hverju eru þetta tvö plögg? Það liggur í hlutarins eðli. Annað plaggið, sem er undirritað af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra, Jóni Gnarr borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, og Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, snýst um athugun og rannsókn á öðrum kostum fyrir flugvelli. Hitt snýst um að leggja eigi niður neyðarbrautina svokölluðu. Af hverju er þetta ekki eitt plagg? Datt mönnum í hug að forstjóri Icelandair væri að skrifa undir svoleiðis plagg eða aðrir sem eru ekki til þess bærir? Þetta er bara af praktískum ástæðum. Það er ósatt að fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi ekki vitað af báðum skjölunum.

Málið nær hins vegar miklu lengra aftur. Málið nær aftur til 1990 þegar þáverandi ráðherra ákveður að hætt verði að nota norðaustur/suðvestur-brautina og henni lokað. Síðan þá hafa fjölmargir skrifað, m.a. í dagblaðinu 2001, Friðrik Pálsson, þá formaður Hollvina Reykjavíkurflugvallar, þar sem hann kynnir samgöngumiðstöð í Reykjavík. Hvar átti sú samgöngumiðstöð að vera? Jú, hún átti að vera ofan á neyðarbrautinni, neyðarbrautin átti að fara. Samkomulag frá 2005 um samgöngumiðstöð og um lokun þriðju brautarinnar. Samgöngumiðstöð og samkomulag um lokun þriðju brautar 2009, þriðji ráðherrann, nú ráðherra Samfylkingarinnar, áður ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Samkomulag um flugstöð og lokun þriðju brautar 2013, ráðherra Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson. Síðan náttúrlega þetta sem við vorum að tala um, samkomulag innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins og borgarstjórans í Reykjavík.

Vandamálið við þessa tillögu er einfaldlega að engir dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að hér væri um neyðarrétt að ræða þar sem aðdragandi málsins hefur verið 25 ár. Ef þetta hefði komið svona úr ráðuneyti, fyrirskipuð lokun, þá hefði mátt láta reyna á það, en ekki þegar aðdragandi hefur verið svona langur.

Málið er hins vegar jafn slæmt fyrir það. Það er bölvað að missa þessa braut núna. En við því verðum við að bregðast með uppbyggilegum hætti og reyna að ná sátt um málið.

Það eru ekki mörg ár síðan ýmsir aðrir sem núna berjast fyrir tilvist þessarar brautar tjáðu sig, svo ég vitni í hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013, með leyfi forseta:

„Grunnforsenda er að þar séu reknar tvær flugbrautir til frambúðar.“ — Tillagan var samþykkt af afgerandi fjölda fundarmanna.

Mönnum hefur þá ekki orðið ljóst fyrir síðustu fjögur, fimm ár að þessi braut væri svona nauðsynleg. Nú kann að vera að hún sé það, en þá væri gott að fá að vita hvaða gríðarlegu breytingar hafa orðið á aðstæðum eða veðurfari sem gerir það að verkum að hún er það núna. Ef það hafa orðið einhverjar slíkar breytingar er svo sannarlega slæmt að við séum komin í þessa stöðu. Ég ítreka það að ég hef jafn miklar áhyggjur og hv. framsögumaður yfir því að staðan skuli vera slík. En okkur greinir á um hvaða leið er vænleg til þess að leysa málið til frambúðar.

Mín skoðun er sú að eina leiðin sem er fær sé að finna lausn sem landsmenn allir geta orðið ásáttir um, kannski verður enginn sáttur, kannski tapa allir pínu í málinu, en þannig er eðli samninga.

Ég held að það væri skref í rétta átt ef núverandi ríkisstjórn beitti sér fyrir því að útvega, selja eða með öðrum hætti leigja eða skaffa lóðir til Reykjavíkurborgar þannig að Reykjavíkurborg geti áfram byggt inn á við og þurfi ekki á næstu árum að ráðast í framkvæmdir sínar á Reykjavíkurflugvelli, svo að það gefist tími og rúm til að finna aðrar lausnir.

Það kom vissulega út skýrsla á grundvelli þess samkomulags sem við töluðum um áðan. Þar var m.a. bent á að Hvassahraunið gæti verið heppilegur kostur. Nú getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni að þar hafi menn haft einhverjar stærri uppbyggingarhugmyndir í huga, það kann að vera, en flugvallarstæðið myndi vera býsna góð leið, held ég, til að sameina þau sjónarmið að virða og gefa borginni möguleika á að byggja upp eins og hún vill og um leið tryggja að við, landsbyggðarmenn sem þurfum á þessu að halda, getum unað glöð við okkar.

Ég ítreka að ég lýsi ábyrgð á hendur þeim sem berja hausnum við steininn og neita að taka í útrétta hönd, neita að leita sátta. Ef flugvöllurinn fer án þess að komin verði önnur lausn í staðinn er ábyrgðin þeirra.