146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég stóð nú líka í þeirri meiningu að ég væri fyrir fólkið.

Fyrst. Hvernig eigum við að leysa málið? Það veit ég ekki og það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir fyrst þetta fór svona. Ég er bara að benda á að ég tel að aðdragandinn að þessari lokun sé svo langur að ekki sé hægt eftir að hæstaréttardómur hefur fallið að grípa fram fyrir hendurnar á honum þannig að við neyðumst til að finna aðra lausn. Finnum þá aðra lausn en rífumst ekki um að hluturinn skuli vera nákvæmlega eins og hann hefur alltaf verið eða ekki. Finnum þá aðra lausn sem væri a.m.k. ásættanleg þó að hún verði kannski ekki jafn góð í augnablikinu. En ég er viss um að við náum betri lausn til framtíðar. Það kann vel að vera að tillaga nefndar samgönguráðherra árið 1990 hafi ekkert stjórnsýslulegt gildi. Hendum því þá bara [Ræðumaður rífur blað.] og förum í næsta þrep, sem er þá samkomulag Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra frá 2005. Það hlýtur þá að hafa eitthvert lögformlegt gildi. Síðan eru liðin allnokkur ár. Málið hefur engu að síður haft svo langan aðdraganda. Ég spyr: Af hverju sitja þingmenn hérna núna og krefjast þess að eitthvað sé gert þegar þeir gerðu ekkert á síðustu árum? Ekki neitt.