146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka orð mín frá því í gær. Sem landsbyggðarmaður er mér mjög ljóst hversu miklu máli skiptir að það séu greiðar samgöngur inn á höfuðborgarsvæðið og að sjúkraflutningar séu tryggir. Ég lýsti því í ræðunni í gær að ég teldi þó að þvinguð leið með lagasetningu kæmi ekki til greina. Um þetta mál yrði að nást sátt og ég teldi reyndar að það væri mögulegt að ná sátt sem leiddi til betri niðurstöðu, bæði fyrir höfuðborg og landsbyggðir.

Því langar mig að spyrja hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson hvort hann sé sammála því sem kemur fram í þingsályktunartillögunni að það komi til greina að beita sérstakri lagasetningu, jafnvel þótt aðdragandinn að lokun neyðarbrautarinnar nái allt aftur til 1990 eða a.m.k. til 2005 með samkomulagi a.m.k. fjögurra ef ekki fimm samgöngumálaráðherra við yfirvöld hér.

Svo langar mig líka að spyrja hann hvort hann telji ekki að komið sé að þeirri ögurstundu að menn verði að setjast niður og vinna þetta mál í sátt, semja við ríkið um lóðaúthlutanir í Reykjavík þannig að Reykjavík gefist kostur á að fresta flutningi flugvallarins í einhvern tíma þannig að við getum náð farsælli lendingu fyrir alla landsmenn.