146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[17:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari er um neyð að ræða í landinu. Sjúkraflugvélar geta ekki lent í Reykjavík vegna lokunar — eða alla vega ekki á neyðarbrautinni þar sem er búið að loka henni. Það er mjög mikilvægt og ég vona svo sannarlega að samstaða náist milli hv. þingmanna um að tryggja öryggi sjúklinga víða á landsbyggðinni og að menn beiti sér fyrir því, sama hvar í flokki þeir standa, að neyðarbrautin verði opnuð að nýju. Hér er um að ræða öryggi sjúklinga úr hinum ýmsu byggðum landsins. Fólk býr jafnvel við skerta heilbrigðisþjónustu og þarf í of miklum mæli að leita þjónustu til höfuðborgarinnar. Það er mjög brýnt að bregðast hratt við, enda segir í þingsályktunartillögu okkar að eigi síðar en í maí 2017 verði ráðherra að vera búinn að bregðast við. Það má ekki líða lengri tími en það. Auðvitað vonar maður að hæstv. samgönguráðherra muni taka efni þingsályktunartillögunnar sem við ræðum hér til skoðunar eigi síðar en strax og beita sér fyrir málinu.