146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

rafræn birting málaskráa og gagna ráðuneyta.

175. mál
[18:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að ég ætla ekki að lengja umræðuna sérstaklega um þetta góða mál. Ég lýsi því hér með yfir að ég styð öll góð mál sem lúta að rafrænni stjórnsýslu. Ég held að mjög mikilvægt sé að við eflum okkur enn frekar í því. Það eykur gegnsæi, eins og hefur verið farið yfir, og er mikilvægt fyrir lýðræðissamfélagið. Það er líka hagkvæmara fyrir samfélagið að rafvæða þjónustuna okkar. Og það er umhverfisvænt. Að öllu því sögðu þá held ég að hér sé um gott mál að ræða. Ég vil brýna okkur öll áfram í því að ýta undir það að stjórnsýslan okkar geti verið rafræn með sem mestum hætti. Þá nota ég tækifærið þegar ég lít yfir þingsalinn, þótt það sé ekki margmenni hér, því að það er mikið af pappír á borðinu þótt við séum öll með spjaldtölvur, tölvur og farsíma, en við í þingsalnum gætum kannski tekið okkur þetta til fyrirmyndar og gerst rafrænni í auknum mæli.