146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

samstarf við breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.

[10:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á því að fagna því sem hér hefur komið fram í fyrirspurn rétt í þessu. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. forsætisráðherra sé tilbúinn til þess að skoða þetta mál betur.

Ég er á talsvert öðrum slóðum. Nýverið var farið í mjög umfangsmiklar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Þegar það mál fór í gegnum þingið var það gert með miklu hraði. Þá var að finna á vef BSRB að harmað var að lögin hefðu verið samþykkt. Með leyfi forseta:

„Alþingi hefur samþykkt þessar veigamiklu breytingar á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna án þess að ná sátt um þær breytingar meðal bandalaga opinberra starfsmanna. Því er ljóst að verkefninu er ekki lokið. BSRB mun því halda áfram að vinna að framgangi þessa máls til að tryggja þau réttindi sem Alþingi hefur afnumið með lögum. Þá er augljóst að þetta verklag mun hafa neikvæð áhrif á samskipti bandalagsins við stjórnvöld.“

Því langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig samstarfi við BSRB er háttað í þessu máli og hvernig framkvæmdastjóri hæstv. ríkisstjórnar hyggst leiða til lykta það sem ekki var búið að vinna að á fullnægjandi hátt áður en lögin um samræmingu lífeyrisréttinda voru samþykkt hér á Alþingi með allt of mörgum lausum endum og allt of miklum hraða rétt fyrir jól á síðasta ári.

Nú er vert að hafa í huga að úrskurðar gerðardóms í kjölfar lögbanns á verkfall opinberra starfsmanna mun falla úr gildi 31. ágúst þessa árs og ekki hafa komið fram neinar tillögur um leiðréttingu launakjara á næstu sex til tíu árum í samræmi við samkomulag við samtök opinberra starfsmanna.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort einhver vinna hafi átt sér stað og hvernig henni verði háttað til þess að tryggja að hér verði ekki uppnám á vinnumarkaði á þessu ári.