146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

skýrsla um könnun á vistun barna á Kópavogshæli.

[14:07]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og öll vorum við slegin óhug eftir að hafa lesið skýrsluna. Sem betur fer, eins og ég sagði hér í þinginu stuttu eftir að hún kom út, lýsir hún kannski blessunarlega vinnubrögðum fortíðar og með einhverjum hætti fordómum og vanþekkingu á málefnum fatlaðs fólks frá fyrri tíð sem hafa á undanförnum árum og áratugum verið tekin til gagngerrar endurskoðunar. Í dag eru vinnubrögðin allt önnur og starfshættir, við starfrækjum ekki heimili af þessu tagi lengur. Í dag er öll áhersla lögð á einstaklingsbundna þjónustu við fatlaða einstaklinga til að tryggja þeim jafnrétti í samfélagi okkar, sem er auðvitað kjarni máls, þ.e. að tryggja fötluðum einstaklingum eins mikið jafnrétti og kostur er á, fullt jafnrétti til þátttöku í samfélaginu og daglegu lífi.

Þegar kemur að einstökum spurningum hv. þingmanns ber fyrst að nefna að á þingmálaskrá á vorþingi eru lög um heildarendurskoðun á málefnum fatlaðs fólks, þar sem tekið er á fjölda þeirra atriða sem bent er á í skýrslunni. Og vel að merkja, þá er það rétt að fram kom í óundirbúnum fyrirspurnum um málið á sínum tíma að ég hygðist funda með höfundum skýrslunnar og sá fundur fór einmitt fram daginn eftir, ef ég man rétt. Það er því rétt að hann hefur farið fram og við erum einmitt að skoða þær aðgerðir sem við hyggjumst grípa til.

Í frumvarpi að nýjum lögum um málefni fatlaðs fólks er einmitt verulega tekið á eftirlitsmálum, eftirlitsskyldu ráðuneytisins og þeim úrræðum sem ráðuneytið hefur til að fylgjast betur með þeirri þjónustu sem sveitarfélögin eru sannarlega að veita. Þar er líka verið að leggja drög að lögbindingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem verður auðvitað gríðarlega mikið framfaraskref í málefnum fatlaðs fólks.

Ég tek undir orð hv. þingmanns um húsnæðisvandann. Hann er ekkert minni þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks og þar þurfum við að skoða hvernig við getum staðið betur að málum og kannski í því samhengi hvernig við getum betur tryggt fólki réttinn til að búa heima við þegar það kýs svo, þennan sjálfsagða sjálfsákvörðunarrétt að velja sér dvalarstað og njóta þá þess stuðnings sem nauðsynlegur er til þess að það sé unnt. Þetta er eitt af því sem við erum að skoða í ráðuneytinu hvernig við getum bætt. Í því samhengi er rétt að hafa í huga, eins og bent er réttilega á, að enn býr fólk í því húsnæði þar sem Kópavogshæli var til húsa. Sá húsakostur er engan veginn fullnægjandi og þar eru þegar áform uppi um umtalsverðar fjárveitingar til úrbóta. Vonandi hillir undir lok þess.

Þarna eru líka fleiri þættir sem við erum að horfa til. Bent er á réttindagæslumenn og vanmátt þess kerfis. Það var mikið framfaraskref þegar sú leið var farin, en það er rétt að þeir eru einfaldlega of fáir og í þeim drögum að ríkisfjármálaáætlun sem nú er unnið að er gert ráð fyrir að unnt verði að tvöfalda fjölda réttindagæslumanna á komandi árum til að treysta þetta úrræði enn frekar í sessi. Þetta er gríðarlega mikilvægt úrræði og mikilvægt að við stöndum vel að því.

Aðrir þættir sem unnið er að á vegum ráðuneytisins er að setja á stofn sérstaka ráðuneytisstofnun, eins og það nefnist, sem á þá að sinna eftirliti, sér í lagi með málefnum fatlaðs fólks til þess einmitt að svara þeirri gagnrýni sem beint hefur verið að ráðuneytinu um að ekki sé nægileg aðgreining á milli framkvæmdarvaldsins og eftirlitsins, þ.e. þeirra starfsmanna sem fara með faglegt forræði í málaflokknum og svo aftur þeirra sem eiga að sinna eftirlitinu. Þarna erum við einfaldlega að ljúka drögum að nýju skipuriti innan ráðuneytisins til að taka á þessari breytingu. Ég á von á því að hún verði að veruleika nú á vormánuðum, við göngum þar hratt og örugglega til verks. Síðan skiptir gríðarlega miklu máli hvað varðar talsmenn fyrir fatlaða einstaklinga, ég held að þeir telji núna á þriðja hundrað, þeim hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að 50–70 talsmenn bætist í hópinn á þessu ári. Við höfum séð að það er úrræði sem skiptir miklu máli og sér í lagi þegar kemur að þjálfun þessara starfsmanna.

Ég held ég hafi náð að tæpa á flestum spurningum hv. þingmanns og þakka fyrir.