146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:18]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp úr hálfgerðri neyð til að veita andsvar við einhverri verstu ræðu sem ég hef heyrt hérna og er nú reyndar endurtekin og jafnvel verri ræða en ég heyrði nokkrum sinnum á síðasta kjörtímabili.

Ég ætla að spyrja hv. þm. Lilju Alfreðsdóttur hvort hún hafi kynnt sér t.d. útreikninga sveitarfélaga sem eru óvarin á þeim ávinningi af þeim lánakjörum sem þau hafa haft af erlendum lánum, t.d. eins og Orkuveita Reykjavíkur á síðustu árum. Ég ætla að svara þeirri spurningu að hluta: Síðastliðið haust kom í ljós að sveitarfélög voru kannski í tapi á einu lántökuári.

Í öðru lagi ætla ég að fá útskýringu á því hvernig það geta verið kjöraðstæður að taka erlent lán í dag þegar krónan hefur styrkst um 10% núna á nokkrum vikum. Er það ekki einmitt núna sem ekki á að taka erlend lán?

Mér er þessi ræða gersamlega óskiljanleg og mun svara henni í seinni ræðu á eftir.