146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að það sé áhugavert, það fer bara eftir aðstæðum. En ég segi enn og aftur að sá lagarammi sem hér er til umfjöllunar er ekki áskorun af neinu tagi. Ég skil í raun ekki þessar vangaveltur. Ég hef sagt og endurtek að ég tel að ef þessir meintu ríku, sem ég veit ekki nákvæmlega hverjir eru, vilja taka verulega gengisáhættu 2. mars 2017 sé þeim það frjálst. Áhætta fyrir hagkerfið er alltaf til staðar. Það er meira að segja áhætta fyrir hagkerfið þegar ég kaupi mér bíl og kaupi gjaldeyri til að kaupa bílinn. Ég raska jafnvægi á markaði með jafn einföldum hlut. Ef allir færu út í dag og keyptu sér bíl væri það veruleg röskun á markaði. Það er áhætta. (Gripið fram í.) Og ef hjarðhegðun af þessu tagi verður er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hægt sé að bregðast við því. Það er ósköp einfaldlega gert ráð fyrir þjóðhagsvarúðarráðstöfunum í frumvarpinu.

Ég segi einfaldlega: Hver einasta lánahreyfing, hver einasta fjármagnshreyfing, felur í sér áhættu. Í þessu frumvarpi er ósköp einfaldlega verið að búa til ramma. Við útrýmum aldrei áhættu. Það er bara svo einfalt að áhætta fylgir mannkyninu. Takk fyrir.