146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[16:56]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar spurningar til hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar. Þegar ég tala um kjöraðstæður er ég að sjálfsögðu að vísa í þær kjöraðstæður að hér er mikill vaxtamunur á milli annars vegar evrunnar og hins vegar íslensku krónunnar. Þetta ætti hv. þingmaður að þekkja mjög vel. Ég ætla aðeins að vísa í það að krónan er mjög sterk um þessar mundir. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það, nú veit hann líklega að Seðlabankinn er búinn að vera inni á markaði og gott ef hann er ekki búinn að kaupa núna á síðustu 24–30 mánuðum um 400 milljarða þannig að sumir gætu spurt sig: Kann að vera að krónan gæti styrkst enn frekar miðað við þessi kaup? Mig langar að spyrja hann að því hvað hagfræðin segir okkur í þeim efnum.

Svo langar mig líka að spyrja hann að því hvernig hann meti þessa setningu sem er í frumvarpinu, ég ætla bara að lesa hana upp aftur fyrir hann og hvort hann gæti skýrt þetta aðeins betur út fyrir okkur hin því ég veit alveg hvernig ég skil þetta. Hér segir:

„Lánveitandi skal aðeins veita lán tengd erlendum gjaldmiðlum til neytenda sem:

b. hefur staðist greiðslumat þar sem gert er ráð fyrir verulegum gengisbreytingum og verulegum hækkunum á vöxtum.“

Ég skil þetta þannig að sá sem getur staðist slíkt hefur auðvitað ákveðið fjárhagslegt svigrúm. Er hv. þingmaður því ósammála? Þegar maður hefur ákveðið svigrúm fjárhagslega, þýðir það ekki að maður sé líklega með tekjuhærri einstaklingum? — Þrjár spurningar.

(VilB: Ég heyrði bara tvær.)

(Forseti (TBE): Forseti vill minna þingmenn á að óska leyfis fyrir beinni tilvitnun.)