146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað á undan mér. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt. Hæstv. ráðherra Jón Gunnarsson var einn af ellefu þingmönnum sem bæði samþykktu samgönguáætlun fyrir kosningar sem og fjárlög eftir kosningar þar sem þetta rímaði nú ekki saman. Við sem vorum hér að störfum þegar fjárlögin voru afgreidd vitum af því að það var ákveðið samkomulag í gangi um að einblína á ákveðna málaflokka, síðan yrði það skoðað þegar ný ríkisstjórn væri komin að völdum. Þetta eru einfaldlega svik á því samkomulagi. Það hvernig skorið er niður til vegamála, hvernig er forgangsraðað er ekki eitthvert einkamál hæstv. ráðherra. Við erum hér með umhverfis- og samgöngunefnd að störfum sem er ekki spurð um neitt í þessu efni, fær bara að heyra þetta í viðtali þegar ráðherra hugnast að tilkynna um það. Við erum hér með þingheim sem á að fjalla um þessi mál samkvæmt lögum.