146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér tók nýtt þing við samþykktri en ófjármagnaðri samgönguáætlun. Starfsstjórn fjármagnaði ekki þá samgönguáætlun í fjárlagafrumvarpinu en fór samt rúmlega 20 milljarða umfram fjármálaáætlun í öðrum verkefnum, en t.d. ekki til heilbrigðiskerfisins. Nýtt þing kom saman og þurfti að redda fjármagni fyrir heilbrigðiskerfið og samgönguáætlun. Það náðist einfaldlega ekki sátt og samkomulag um hærri framlög til þess að fjármagna samgönguáætlun eða heilbrigðiskerfið. Við náðum ekki í meiri peninga en komu fram í samkomulagi þingsins um afgreiðslu fjárlaga 2017. Þetta er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir.

Starfsstjórnin fjármagnaði ekki samgönguáætlun eins og hún átti að gera heldur skilaði frumvarpi að fjárlögum sem var 20 milljörðum (Forseti hringir.) umfram fjármálaáætlun án samgönguáætlunar. (Forseti hringir.) Við þurftum að stoppa upp í gatið. Það náðist ekki samkomulag um (Forseti hringir.) hærri upphæð en þetta. Nú sitjum við í súpunni þegar ráðherra (Forseti hringir.) hliðrar til.