146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:48]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vildi bara leiðrétta þann misskilning sem gætir hjá hv. þm. Pawel Bartoszek um að það sé einhvern veginn vandamál að dagskráin liggi fyrir. Við áttum okkur öll á því að þarna getur verið um drög að ræða og hægt að breyta kannski dagskránni eftir því sem þarf. En það er algerlega óásættanlegt að það sé ekki dagskrá og ekki hægt að undirbúa sig með neinum hætti. Því þykja mér það einnig fréttir að klæðaburður þingmanna sé til umræðu hjá forsætisnefnd í staðinn fyrir að ræða það sem ég held að sé miklu mikilvægara og liggi meira á, að breyta fyrirkomulagi dagskrár þannig að við fáum dagskrána jafnvel viku fram í tímann. Við erum ekki að biðja um mikið. Viku fram í tímann. Þetta er einfalt. Gerum þetta.