146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Loftslagsmál eru ofarlega á baugi þessa dagana. Í síðustu viku ræddum við skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ísland hefur alla burði til að verða forysturíki í loftslagsmálum. Fá eða engin ríki hafa jafn góð tækifæri til að rafvæða samgöngur.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta hljómar vel. Mér varð það á að líta í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar lagði fram. Þar er meðal annars gert ráð fyrri því að virðisaukaskattur af svokölluðum hreinorkubifreiðum verði endurgreiddur. Þetta er útfært með þeim hætti að þarna er talað um að 5.000 til 12.500 fyrstu rafmagnsbifreiðarnar og 5.000 til 12.000 fyrstu vetnisbifreiðarnar skuli njóta þessara fríðinda, þ.e. þeir sem kaupa þær. Ég átta mig reyndar ekki á því til hvers lægri mörkin eru, en það kannski fæst síðar meir útskýrt fyrir mér. Þetta gildir fyrir fimm ár. Þannig að við erum að tala um 2.000 til 5.000 bifreiðar á ári, allt eftir því hvor mörkin eru notuð, í mesta lagi 5.000 bifreiðar á ári.

Þann 31. desember síðastliðinn voru 277.360 bifreiðar í landinu. Þetta þýðir að við munum seint ná að endurnýja bílaflotann í það minnsta með þessum hætti og með þessum ívilnunum. Við hljótum að geta gert betur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna