146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum að undanfarna daga höfum við verið að ræða samgöngumál. Ég ætla að halda því hér áfram og byrja á því að vitna í stjórnarsáttmálann þar sem segir, með leyfi forseta:

„Álag á samgöngukerfið hefur vaxið mikið undanfarin ár, einkum vegna fjölgunar ferðamanna. Í því ljósi verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum.“

Þetta eru mikilvæg orð. Í ljósi þess sem fram hefur komið langar mig að eiga orðastað við hv. formann fjárlaganefndar, Harald Benediktsson, þar sem við vorum samkvæmt fjármálaráðherra — ég verð nú eiginlega að spyrja hvort hann taki undir þá orðræðu sem hæstv. ráðherra hefur viðhaft um þessi mál og afgreiðslu okkar sem þingmanna á málinu eins og það kom fyrir í fjárlögum og eins afgreiðslu samgönguáætlunar. Hv. þingmaður sagði sjálfur í þætti á RÚV, minnir mig, þar sem hann sat fyrir svörum ásamt öðrum þingmönnum, að hann ætlaði ekkert að útiloka eftirfarandi, með leyfi forseta:

„… ríkisstjórnin núna myndi endurskoða fjárlögin fyrir þetta ár. Við reiknuðum alltaf með því í fjárlagavinnunni í haust að ný ríkisstjórn myndi á einhvern hátt koma með nýtt fjárlagafrumvarp.“

Hv. þingmaður var vissulega ekki að boða ný fjárlög, en hann nefndi þetta. Við þurfum eitthvað að gera, ég held að við getum ekki látið þar við sitja. Við erum búin að eiga hér víðtækt samráð við sveitarfélögin sem hafa forgangsraðað verkefnum og allt það þekkjum við. Gæti þingmaðurinn hugsað sér að við mundum hækka markaða tekjustofna? Það er nú gjarnan talað og hæstv. fjármálaráðherra talaði í morgun eins og þeir væru að fullu aflagðir. En það er ekki svo. Í lögum um vörugjald af ökutækjum, bensíngjald og fleira og í lögum um olíu- og bensíngjald — þau getum við t.d. hækkað, við getum fært þau nær verðlagi þar sem krónan er (Forseti hringir.) svo sterk.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann sjái þá leið færa eða einhverja aðra því að það er hægt að gera þetta strax (Forseti hringir.) og láta það taka gildi um næstu mánaðamót.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna