146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:28]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að taka undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur um að það er mjög leyndardómsfullt hvernig hv. þm. Teitur Björn Einarsson talar um stuðning flokks hans við þetta mál.

Ég ætla að tala aðeins um þessi mál á almennum nótum frekar en að rýna beint í efnisatriði þess sem kemur fram. Það liggur ekkert á að fullvirkja landið. Í bókinni um fjallabóndann segir hvernig stórvirkjanir slíta sundur samfélög. Það er að gerast við Þjórsá og við Hvalá. Þjórsárvirkjanir höggva skarð í laxastofninn í Þjórsá og spilla trúverðugleika Íslands sem laxveiðiþjóðar, trúverðugleika og orðspori Íslands sem þjóðar sem fóstrar laxinn. Eru það öfgar að fara hægar, að staldra við, að leyfa náttúrunni, eins og margir hafa talað hérna um, að njóta vafans? Nei, ég lít svo á að það séu ekki öfgar. Núna þegar innviðir ferðaþjónustunnar eru að hruni komnir lít ég svo á að það væru öfgar að halda áfram þessari útþenslustefnu á stóriðjuvæðingarbraut sem við höfum verið á í áratugi. Hér eru allir verktakar og verkfræðingar á fullu. Hvers vegna er ríkinu umhugað um að virkja fleiri staði þegar ekki hefur einu sinni tekist að byggja pall við Geysi? Þangað fer um milljón manns á ári. Þar ætti að vera það besta, ef vel ætti að vera, sem íslenskur landslagsarkitektúr hefur upp á að bjóða. En umhverfið í kringum okkar heimsfræga Geysi er landi og þjóð til skammar.

Álverið í Helguvík stendur eins og minnismerki um fúsk í orkustefnu. Mengunin þar er viðbjóðsleg og væntanlegt hrun á húsnæðisverði næst kísilverinu í Helguvík er skólabókardæmi um skammsýni. Áætlanir Landsnets um tugmilljarðafjárfestingar til að þjóna örfáum erlendum verksmiðjum, sem við eigum öll að taka þátt í að koma á koppinn, er enn eitt dæmið um viljandi kostnað sem er lagður á almenning, á atvinnulífið, og ber með sér ógagnsæja verðlagningu á rafmagn.

Hellisheiðarvirkjun hefur mikið verið í umræðunni upp á síðkastið. Þar er minnkandi vinnslugeta og brennisteinsvetnismengun á höfuðborgarsvæðinu hefur farið yfir hættumörk. Hættum þessari útþenslustefnu, einbeitum okkur sem þjóð að þeim verkefnum sem við eigum nú þegar fullt í fangi með að ráða við.

Við þurfum að huga að innviðum ferðaþjónustunnar, hagnaði og betra skipulagi á orkumarkaði, betri nýtingu og nýtni, hætta áframhaldandi skuldsetningu og fara að skila hagnaði til þjóðarinnar. Svört skýrsla hæstv. umhverfisráðherra gefur ekki til kynna að við þurfum að spýta í hvað varðar stóriðjustefnuna, þvert á móti.

Náttúran á að fá að njóta vafans og ég sé ekki hvers vegna við þurfum, eins og hæstv. umhverfisráðherra benti á, alla þessa rosalega orku. Hvað á að gera við hana alla? Við þurfum núna að staldra við, horfa á hlutina heildstætt og ákveða hvert við ætlum sjálf að fara með þetta sem þjóð. Ísland er líka að tapa sérstöðu sinni með það að vera með ódýrasta orkuframboðið. Þróun á heimsmælikvarða er þannig að eftir nokkur ár verðum við bara komin fram úr okkur og okkar rafmagn og orka verður dýrari. Það verður engin þörf eins og verið hefur síðustu áratugi.

Við þurfum að staldra við og hefja samtalið. Ég er alveg handviss um að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra muni gera það.