146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst fagna því að hæstv. ráðherra hyggst gera gangskör að því að setja aukinn kraft í friðlýsingar á svæðum í verndarflokki. Ég þekki það jafn vel og hæstv. ráðherra að ýmsar ástæður geta verið fyrir því að dregist hefur að ljúka friðlýsingu svæða. En þá vakna líka spurningar um hvort ekki þurfi hreinlega að setja meiri mannafla og meira fjármagn í að ljúka því. Þetta snýst líka um pólitíska forgangsröðun sem birtist í því. En ég fagna því ef hæstv. ráðherra hyggst sækja þann mannafla og það fjármagn til þess að geta sett aukinn kraft í það.

Hæstv. ráðherra veltir því upp og spyr í hvað ég vitni þegar ég vitna til orða hv. þingmanna stjórnarliða. Ég get til dæmis vitnað til orða hv. þm. Teits Björns Einarssonar sem kom hér upp og taldi að hugsanlega þyrfti að gera verulegar breytingar á tillögunni og var spurður um það í framhaldinu í andsvari af hv. þingmönnum. Ég vitnaði kannski fyrst og fremst til þeirra orða og þess vegna, eðlilega, velti ég því upp. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hún telji að það sé stuðningur við það hjá meiri hlutanum að ljúka málinu, þó að sjálfsögðu fari það í þinglega meðferð, hins vegar ekki með því sem við getum kallað verulegar breytingar. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hún telji að þannig sé andinn innan meiri hlutans.

Skrokkalda og málamiðlanir. Vissulega þekkjum við þær öll. En þá má spyrja, í ljósi yfirlýsinga um friðun og vernd miðhálendis, sem er auðvitað gríðarlega stór pólitísk stefnumörkun, hvort ekki sé eðlilegt, því að það er enginn að leggja til, eða ég var að minnsta kosti að gera það endilega, að setja Skrokköldu í verndarflokk, en ég velti fyrir mér hvort þau pólitísku stefnumið sem hafa verið viðruð séu ekki nægjanleg ástæða til þess að Skrokkalda sé sett í biðflokk og hún metin út frá því hver niðurstaðan verður af þeirri stefnumótun sem boðuð hefur verið. Að sjálfsögðu þurfum við líka að horfa til þess, (Forseti hringir.) eins og ég sagði í upphafi þessarar umræðu, að nýtingarflokkinn getum við kallað að einhverju leyti óafturkræfan, sem ekki á við um aðra flokka í þessu.