146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að fagna því að núverandi hæstv. umhverfisráðherra leggur til að þessu máli verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem það á heima. Við þurfum þá ekki að standa í þeim deilum sem einkenndu meðferð málsins á síðasta kjörtímabili.

Ég vil í öðru lagi segja að ég held að verkefnisstjórnin hafi unnið gott starf þótt betur hefði mátt búa að henni, bæði hvað varðar tíma og fjármuni. Það liggur alveg fyrir. En það má kallast nokkuð vel að verki staðið þar sem hún hefur þó náð að gera við þessar aðstæður undir þrýstingi um að hraða störfum sínum og síðan tafðist ýmis vinna sökum skorts á fjármunum og ágreinings um það hvernig greiðslum yrði hagað fyrir einstaka þætti o.s.frv.

Engu að síður tel ég að hér hafi verið nokkuð vel að verki staðið. Ég vil koma því á framfæri sem ég hef reyndar gert áður opinberlega, m.a. í blaðagreinum, sem markar pínulítið þetta mál og sést ekki síst á því að skoða biðflokkinn, að ég er afar ósáttur við framgöngu Orkustofnunar hvað varðar viðleitni til að troða eiginlega öllum mögulegum, hugsanlegum virkjunarkostum inn í vinnu verkefnisstjórnar, sem að mínu mati eiga þangað ekkert erindi. Svo langt var gengið meira að segja, að Orkustofnun reyndi að koma Jökulsá á Fjöllum þar inn en varð svo að játa sig sigraða þegar í ljós kom að hún er auðvitað komin í skjól sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.

Það er á grundvelli tillagna frá Orkustofnun sem þar eru t.d. inni í biðflokknum að mínu mati algerlega fráleitar tveggja til þriggja áratuga gamlar virkjunarhugmyndir, eins og úr hvítbókinni frá því upp úr 1990, virkjun Hafralónsár, neðra og efra þrep, sem eyðileggur fjórar laxveiðiár í einu til að skafa upp ein 20–30 megavött með skurðum og lónum þvert yfir heiðar. Hofsárvirkjun, hvað eru menn að pæla? eins og menn myndu sjálfsagt segja í dag á nútímatungumáli. Hvernig dettur mönnum þetta í hug, að vera þarna undir með Hofsá, eina mestu perlu landsins í hópi bergvatnsáa og laxveiðiáa, Vatnsdalsá og Hafralónsá, ef það er Orkustofnun sem nuddar með þetta inn í þessa vinnu? Verkefnisstjórn gerir sem betur fer ekkert annað með þetta en að setja þetta í bið, en það á ekki einu sinni heima þar því að þetta eru perlur sem á að láta í friði.

Segja má að meginniðurstaða verkefnisstjórnar sé að mörgu leyti í ágætu jafnvægi, a.m.k. setur hún þann sem hér stendur í þannig stöðu að maður er svolítið togaður í tvær áttir, annars vegar eru vissulega verulegir áfangar í þágu náttúruverndar í tillögum um að setja í heild sinni Skjálfandafljót og vatnasvið þess, Héraðsvötnin eða jökulsárnar í Skagafirði og vatnasvið þeirra í verndarflokk. Það eru miklir sigrar og miklir áfangar.

En svo eru aðrir hlutir sem eru manni þungbærir, eins og virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár og ég get út af fyrir sig tekið undir það með Skrokköldu líka. Það viðkvæma við þá virkjun er hvað hún er langt inni í landinu, inni á sjálfu miðhálendinu og kemur þar með beint inn í hugmyndir um stóran og myndarlegan íslenskan miðhálendisþjóðgarð.

Ég er persónulega þeirrar skoðunar, og þar er ég kannski einna ósáttastur við niðurstöðuna, að það sé algerlega ótímabært að færa Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun úr biðflokki. Þar skortir svo mikið upp á fullnægjandi rannsóknir og útfærslur hugmyndanna um virkjanir að það hálfa væri nóg. Laxastofninn í Þjórsá er einn sterkasti villti laxastofn við Norður-Atlantshaf. Hann er mjög sérstakur og hann hefur dafnað og viðgengist af eigin afli. Þar er ekki um ræktun að ræða og veiðin er upp í 10.000–12.000 fiska á ári, þar af upp undir þúsund fiska á stöng í ánum sem í Þjórsá falla, eins og Kálfá, Fossá, Sandá og Minnivallalæk. Þetta gerir þennan stofn einn þann allra stærsta og verðmætasta sem við erum að passa upp á í íslenskri náttúru og þótt víðar væri leitað því að víða er að laxinum sótt.

En það er fleira en lax. Þarna eru miklar sjóbirtingsgöngur þegar líður á sumar og þarna er bleikja, sennilega bæði sjógöngubleikja og staðbundin. Þarna er staðbundinn urriðastofn, þarna eru gríðarleg búsvæði laxfiska sem öll eru undir í þessum virkjunaráformum. Augljóslega er Urriðafoss varasamastur að því leyti að hann teppir allar göngur upp á efra hluta vatnasvæðisins og hugsanlega grandar seiðum á niðurgöngu o.s.frv. enda hefur mönnum gengið illa að fá menn til að trúa því að einhverjar skiljur og annað því um líkt í jökulvatni vel að merkja, það er ekki eins og þetta sé lygnt bergvatn sem þarna á að fara að glíma við, komi til með að virka.

Holtavirkjun er mjög slæm vegna þess að hún eyðileggur gríðarlega stór búsvæði um miðbik árinnar, sennilega búsvæði sem eru drjúgur hluti af undirstöðunni undir hinum sterku stofnum sem eru í Þjórsá. Þar í breiðum og álóttum farvegum með ferskvatni, sums staðar meðfram löndunum, eru gríðarmikil hrygningar- og búsvæði. Fyrir nú utan að áformuð hönnun Holtavirkjunar af hálfu Landsvirkjunar er algerlega skelfileg og til að spara einhverja smáfjármuni er virkjunin hönnuð þannig eða bráðabirgðahönnun hennar er þannig að hún veldur miklu meiri skaða og tjóni en hún þyrfti að gera, öðruvísi hönnun, með því að taka vatnið í virkjunina öðrum megin Árness en láta yfirfallið fara hinum megin um annars tóman farveginn sem allir sjá hversu óheppileg ráðstöfun er. Þarna er að mörgu að hyggja.

Þessar virkjanir hafa líka veruleg áhrif og röskun í för með sér í byggð, í nærumhverfinu og mikil félagsleg og menningarleg áhrif. Ég tel mjög sterk rök fyrir því að þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, ef við gefum okkur að Hvammsvirkjun sé afgreidd með síðustu afgreiðslu á rammaáætlun, að hinar tvær þá a.m.k. færu í bið en helst auðvitað allar þrjár.

Tíminn leyfir að sjálfsögðu ekki langar umræður um önnur atriði þessu tengd en ég vil þó nefna, eins og aðeins hefur verið tæpt á hér í umræðunni, að auðvitað er ástæða til að ræða rammaáætlun og niðurstöður þar í samhengi við orkustefnuna, orkunýtingaráform landsmanna og flutningsmál. Þetta hangir vissulega allt saman og Alþingi þyrfti helst að gefa sér góðan tíma til að ræða þetta allt í samhengi. Það eru menn hér í landinu sem ganga um og reyna að telja okkur trú um að við séum að verða rafmagnslaus, að farið verði bara að slökkva ljósin eftir nokkur ár. Það eru þeir sem er tamt að hugsa og geta eiginlega ekki hugsað í minna en hundruðum megavatta og eru þá yfirleitt með á hinum endanum nokkur hundruð þúsund tonna álbræðslur sem þurfa að svelgja í sig 400–600 megavött, eitthvað svoleiðis. Í þeim skilningi má auðvitað segja að landið sé að verða rafmagnslaust, við getum ekki tappað inn á nokkrum nýjum álverum sisona, en þegar kemur að almennum notum fyrir almennan markað og fyrir minni og meðalstóran iðnað er engin hætta á ferðum og næg orka sem þegar er fallin í nýtingarflokk sem hægt er að taka í gagnið á komandi árum. Auðvitað vantar heildstæða stefnu, orkunýtingarstefnu og orkunýtingaráætlanir fyrir Ísland, þar sem orkuskipti eru tekin inn í þetta og einhver stefna tekin um það hversu langt við ætlum að ganga í því að nota upp á einhverjum áratugum þessa auðlind sem virkjanleg orka með sæmilegu móti er á Íslandi.

Við sem gráðug núlifandi kynslóð ættum að minnast þess að það er ekki bara okkar að taka þessar ákvarðanir um aldur og ævi og fyrir hönd ókominna kynslóða. Mér finnst eðlileg hugsun að það eigi líka að umgangast þetta sem auðlind af því tagi þar sem á að skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum.

Flutningsmálin eru líka þessu mjög tengd. Ég tel að áform Landsnets séu enn allt of mikið mörkuð af stóriðjuhugsunarhættinum, að flutningskerfið um landið þurfi að vera gríðarlega afkastamikið, háspennt og geta flutt hundruð og aftur hundruð megavatta hist og her um landið. En í hverra þágu er það? Ekki almenns markaðar. Ekki minni og meðalstórra notenda. Nei, það er þá til þess að hægt sé að tengja inn á hringinn eða hvar sem er stórnotendur. Mörg vandamál sem menn standa frammi fyrir í flutningsmálunum núna væru auðleysanleg ef menn væru með aðrar og hógværari áætlanir undir um orkunýtingu, sem miðuðu meira við þarfir innlends markaðar og lítilla og meðalstórra notenda en minna við stóriðju. Þá er t.d. hægt að fara með mikið af línum í jörð, og það er hagkvæmt, sem verður það síður ef stóráformin eru öll höfð undir. Landið er ekki að verða rafmagnslaust, það þarf vissulega að styrkja flutningskerfið, sérstaklega á ákveðnum svæðum, eins og út á norðausturhornið, til Vestfjarða og um Miðnorðurlandið, en það er allt saman leysanlegt og hægt að mæta þeim þörfum sem þar eru orðnar núna í bili. Alþingi og stjórnvöld eiga núna að taka sér góðan tíma og skoða þetta allt í samhengi, líka París og loftslagsmálin og hver okkar heildarstefna í þessum efnum á að vera. Við skulum ekki flana að neinu, frú forseti, og ég mæli sérstaklega (Forseti hringir.) með því, úr því að svo vel vill til að málið fer til umhverfis- og samgöngunefndar, að hún taki sér góðan tíma í heildstæða skoðun á þessum málum.