146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við áttum hér allnokkrir þingmenn orðaskipti við hæstv. forseta í gær vegna orða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er lutu að samþykkt samgönguáætlunar og síðan fjárlagafrumvarps. Í orðum hans kom fram að hann teldi það í vissum skilningi bera vott um siðleysi að hafa samþykkt hér samgönguáætlun í lok síðasta þings í aðdraganda kosninga. Í ljósi þess hversu alvarleg orð hæstv. ráðherra eru og ekki síður þegar hann talaði um það að þingið hefði gert mistök við samþykkt fjárlaga og hefði verið stjórnlaust vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi átt orðastað við hæstv. ráðherra um þessi mál. Ég tel þetta vera það alvarlegt í samskiptum þingsins við ráðherrann að mér finnst mikilvægt að þingforseti taki málstað þingsins í þessum samskiptum og spyr þess vegna forseta hvort slíkt samtal hafi átt sér stað.