146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:44]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Í gær gerðust þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi talsmenn barna. Við tókum að okkur það hlutverk að hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi við störf okkar. Fulltrúar ungmennaráða ávörpuðu okkur. Forsætisherbergið var fullt af fjölmiðlamönnum sem ákváðu flestir að segja ekkert eða lítið frá þeim mikilvægu ávörpum sem ungmennin fluttu. Ég vil fyrir hönd talsmanna barna biðja ungmennin, sem mættu hér í gær í þeirri von að vekja athygli á réttindum barnanna, sem láta til sín taka, afsökunar á því að orð þeirra bárust ekki langt út fyrir herbergið sem við sátum í.

Sem talsmaður barna hef ég lofað að leitast við að tileinka mér barnvæn sjónarmið, bera réttindi og hagsmuni barna fyrir brjósti og meta og vekja athygli á áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar eru í þinginu á börn dagsins í dag og börn framtíðarinnar. Af því tilefni vil ég minnast á 3. og 4. gr. úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Úr 3. gr., með leyfi forseta, stendur um það sem er barninu fyrir bestu:

„Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.“

Og í 4. gr., um ábyrgð aðildarríkja, segir:

„Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um eftir því sem þau framast geta, m.a. með lögum og reglum. Ríkin skulu hjálpast að þannig að öllum börnum verði tryggð þessi réttindi.“

Í lokin vil ég þakka ungmennum fyrir þau ávörp sem þau fluttu okkur í gær.