146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:59]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í hádeginu hlustaði ég á virkilega áhugavert erindi Rose Gottemoeller sem ræddi Atlantshafsbandalagið og alþjóða- og öryggismál í Norræna húsinu, en Rose er fyrsta konan sem gegnir stöðu varaframkvæmdastjóra NATO. Ljóst er að mörg mikilvæg verkefni blasa við NATO en fundurinn var ekki einungis merkilegur fyrir öll þau mikilvægu mál sem komu þar fram heldur var þetta stórfenglegur kvennafundur. Það var ekki amalegt að vera í hópi með Gottemoeller varaframkvæmdastjóra, Piu Hansen, forstöðumanni Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Jónu Sólveigu Elínardóttur, hv. formanni utanríkismálanefndar, og Önnu Jóhannsdóttur sendiherra á þessum merka degi, alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Ég óska öllum til hamingju með daginn. Við erum framúrskarandi í jafnréttismálum en megum alltaf gera betur. Við eigum einnig að nýta krafta okkar og góða stöðu til að ræða jafnréttismál á heimsvísu, en það gerði ég að umtalsefni mínu á NATO-þingi í Brussel í síðasta mánuði þegar ég spurði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO um áætlun Women, Peace and Security Agenda, eða jafnréttisáætlun NATO, hvernig henni miðaði áfram. NATO hefur tekið mikilvæg skref í þessum málum þótt enn sé barátta fyrir hendi. Þar erum við þeim gott fordæmi.