146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Mig langar í fyrsta lagi að tala um það hvers konar yfirbragð það er í samfélagi sem endurspeglast í menntastefnu hverrar ríkisstjórnar eða stjórnvalda fyrir sig og brýna ráðherrann í því að leitast frekar við að við búum í samfélagi sem opnar fangið á móti fólki sem vill menntast, að við séum samfélag sem vill menntun fyrir alla óháð efnahag á öllum skólastigum. Þetta er grundvallarhugsun sem endurspeglast síðan í þeim ákvörðunum sem fram koma hverju sinni.

Ég vil líka brýna ráðherrann að því er varðar stöðu íslenskra tungu í stafrænum heimi, sem er jafnframt einn af hornsteinum íslensks menntakerfis á öllum skólastigum og í því að efla tungutækni. Hann hefur þegar talað um þau mál. Sú sem hér stendur hefur haft mikinn áhuga á því máli og vonast til þess að núverandi hæstv. ráðherra taki það verkefni alvarlega því að þetta er stórmál.

Í þriðja lagi vil ég brýna ráðherrann í því að tryggja að ákvarðanir í menntapólitík séu teknar á forsendum þingsins og fagnefnda, þ.e. að við lendum ekki í því sem við höfum séð og hér hefur verið rætt varðandi 25 ára regluna svokölluðu. Þrátt fyrir viðbárur hæstv. ráðherra er það svo að þar vorum við í raun og veru að taka menntapólitíska ákvörðun í fjárlagaumræðunni. Umræðan fór aldrei inn í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta þurfum við að passa að sé fyrir hendi.

Í fjórða lagi vil ég nefna það sem við þyrftum að eiga sérstaka stóra umræðu um, sem er kennaraskortur í nánustu framtíð og hvernig við ætlum að bregðast við honum, um kjör kennara og tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Og að lokum um fjármögnun háskólastigsins og mikilvægi þess að íslenska háskólastigið sé samkeppnisfært við háskólana í kringum okkur, ekki aðeins samfélagsins vegna heldur líka fyrir fólkið okkar, fyrir uppbyggingu atvinnulífs og fyrir möguleikana inn í framtíðina.