146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[16:56]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja máls á umræðum um framtíðarsýn fyrir skapandi greinar. Jafnframt þakka ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hans innlegg.

Skapandi greinar eru mjög mikilvægar í samfélagi okkar og hafa fylgt íslensku þjóðinni frá landnámi. Skapandi hugsun hefur verið eitt af því mikilvægasta sem hefur einkennt íslenskt samfélag og hefur okkur vegnað nokkuð vel á þessu sviði. Nauðsynlegt er að halda áfram að láta þessar greinar dafna og vaxa en samhliða því að styðja við framgang þeirra.

Mig langar til að taka upp nokkra þætti sem Rannsóknarmiðstöð skapandi greina leggur áherslu á, sem ég tel að eigi að vera leiðarljósið í vinnunni fram undan. Í fyrsta lagi að halda áfram að rannsaka og efla skilning á menningu og sköpun í hagrænum skilningi. Í öðru lagi að stuðla að þekkingu á umhverfi menningar, sköpunar og hlutverki þess í skapandi greinum. Í þriðja lagi að efla þekkingu á hlutverki og umfangi menningar og sköpunar í íslensku samfélagi.

Spurningarnar sem fram koma hjá frummælanda eru allar góðar og gildar. Mig langar að nefna sérstaklega eina, en hún varðar það hvort ekki eigi að efla reglulega skráningu upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífinu. Það eru reyndar flestir sem hér hafa tekið til máls sem nefna akkúrat þennan þátt þannig að ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að bæta. Þegar ég var að undirbúa þessa umræðu var mjög erfitt að afla gagna. Eins og nefnt var eru gögnin í raun og veru frá 2010. En til þess að við getum sett fram árangursríka stefnumótun er varðar skapandi greinar þurfum við að sjálfsögðu að hafa aðgengi að góðum gögnum. Ég fagna því sem kom fram í máli ráðherrans að það eigi að auka framlög til að vinna að því að skrá reglulega upplýsingar um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífinu. Að auki er brýnt að stuðlað verði að enn frekari framgangi skapandi greina.