146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[16:59]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Skapandi greinar hvers konar verða sífellt stærri að hagrænu umfangi og mikilvægi þeirra eykst með hverju árinu. Það er einmitt talað um að 60% af ungu fólki muni starfa við eitthvað í framtíðinni sem við vitum ekki eða getum ekki ímyndað okkur hvað verður. Það er þó mikilvægt að öðrum mælikvörðum en hagvaxtarmælikvörðum verði beitt til mats á þessum málaflokki, sem sagt almennri hagsæld.

Í ríkisstjórnarsáttmálanum er sérstaklega stefnt að því að styðja við rannsóknir og þróun og víkka hlutverk samkeppnissjóða út til rannsókna á sviði skapandi greina. Á það einnig við um launa- og verkefnasjóði. Leitað verði leiða til að auka aðgengi að vaxtafjármagni fyrir nýsköpun og hugvitsfyrirtæki að erlendum mörkuðum og nauðsynlegri erlendri sérfræðiþekkingu. Með því má nefnilega tryggja að forsendur skapist fyrir byggð, t.d. í sveitum landsins, með fjölbreyttari starfsemi en hefðbundnum landbúnaði. Einnig ætti það að vera áhersla að flétta nýja þekkingu inn í rótgróna starfsemi iðnaðar og fleira. Meira frjálsræði og sveigjanleiki þarf að ríkja í íslensku stjórnkerfi. Það þarf að vera móttækilegt fyrir skapandi hugsun og breytingar þurfa að vera eðlilegur hluti af rekstrarumhverfi hins opinbera eins og annars staðar í atvinnulífinu.

Innan Bjartrar framtíðar er sterkur vilji til að byggja upp þverfaglegar atvinnugreinar. Þess vegna þarf að bæta starfsumhverfi sjálfstætt starfandi listamanna, styðja við rannsóknir sem treysta grundvöll lista og menningar. Björt framtíð vill líka að framlögum ríkisins til verkefna á þessu sviði verði úthlutað í gegnum lögbundna sjóði með faglegum úthlutunarnefndum þar sem gegnsæi og skilvirkni verði höfð að leiðarljósi og tryggt að slíkir sjóðir endurspegli fjölbreytni menningarlífsins. Framtíðin er skapandi, en við þurfum að skapa jarðveg fyrir hana svo hún festi rætur.