146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu eins og aðrir hv. þingmenn hafa gert; hún er mikilvæg. Ég vil líta þannig á þetta að skapandi greinar og listin séu rauður þráður í gegnum allt atvinnulíf. Skapandi greinar og sköpun er hvergi meiri en í atvinnulífinu; í sjávarútveginum er mesta nýsköpunin. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvaða tæki við höfum og hvernig við getum stuðlað að þessu gróskuumhverfi, nýtt það sem við höfum. Hv. þingmaður sagði áðan að það þyrfti að kynna þetta. Hvaða kynningarstarfsemi höfum við til að kynna skapandi greinar? Þar höfum við til dæmis Íslandsstofu sem ríkið er með. Svo erum við með þessi stóru samtök eins og Samtök atvinnulífsins, sem eru í margs konar starfi af þessum toga, sem við skulum nýta fyrir alla flokkana, ekki vera alltaf að búa til eitthvað nýtt heldur nýta það sem við höfum til staðar. Við skulum nýta það til að auka rannsóknir, auka greiningar og skráningar um það hvað þessi þáttur atvinnulífsins og samfélagsins skilar miklu, hvað hann skaffar, hvað vantar til að ná frekari árangri. Ég held að skóli eins og Listaháskólinn ætti að tengjast mun betur öðrum háskólum sem eru með fjölbreyttara svið eins og Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands þannig að aðrar greinar samfélagsins fari að horfa inn í skapandi greinar og listina og rannsaka hvað þær eru að gera út frá sínu sjónarhorni. Þannig held ég að við getum lyft þessu öllu saman og nýtt krafta hver annars.