146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

atvinnuleysistryggingar.

121. mál
[14:50]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Í fangelsunum fer fram margvísleg vinna. Ég sé ekki hvernig sú vinna er frábrugðin annarri vinnu þó að hún hafi einhvern veginn verið tekin út úr sviga í þessu kerfi.

Í fyrsta lagi vil ég minna á þá gífurlegu ábyrgð sem við berum sem samfélag þegar við fangelsum menn. Ég hef minnst á það áður á mínum stutta tíma hér að þetta er grafalvarlegt. Tilgangur afplánunar er fyrst og fremst að skila mönnum aftur út í samfélagið betri en þeir komu þangað inn. Aðrar ástæður eru bara úreltar. Afplánun er ekki refsing. Ef einhver heldur það þá þarf hann alvarlega á endurmenntun að halda.

Þetta frumvarp leggur til fjárhagslegan grundvöll fyrir nýtt og betra líf fyrir menn og konur sem snúa út úr fangelsum, það er einfaldlega svo. Þegar fangar losna glíma þeir við ótrúleg vandamál sem við getum varla ímyndað okkur. Það er hálfgerð útskúfun þegar þeir fara svo að reyna að koma sér inn á vinnumarkaðinn. Þeir eiga alls ekki auðvelt með það fyrir utan allar áhyggjurnar sem fylgja með. Frumvarpið hvetur líka beinlínis til náms. Nám er af mörgum talið, sérfræðingum Fangelsismálastofnunar og annarra, lykilforsenda þess að eitthvað breytist í þeirra högum, menntunin. Sumir eru að klára próf sem þeir áttu ólokið, það skiptir kannski ekki öllu máli, en það er mjög mikilvægt að hvetja þá til náms sem síðan skilar þeim tækifærum þegar þeir losna út.

Fyrir utan þetta þá er vinna í fangelsi, sama hvort það eru skúringar, eldamennska, þvottastöðin á Litla-Hrauni, bílnúmerasmíðin og annað sem þar fer fram, bara vinna. Og það að við skulum einhvern veginn taka það svona út er forkastanlegt. Þetta eru ekki háar fjárhæðir. Þetta er ekki mikið af fólki, en það kostar okkur gríðarlega að gera þetta ekki og skila mönnum út á strætóstoppistöð eftir afplánun, allslausa, oft með engin plön beinlínis vegna fjárskorts líka af því við sinnum þeim ekki. Þetta frumvarp gefur þeim það svigrúm sem þarf til að ná áttum þegar þeir losna, hafandi hvatt þá til náms, til vinnu, vinnu sem þeir geta síðan sinnt áfram utan fangelsisins, það má segja að þeir öðlist jafnvel starfsreynslu. Þetta er allt saman gríðarlega mikilvægt. Þeir sem ganga út úr fangelsi hafa gert upp við samfélagið og eiga því að hafa sama rétt og aðrir menn. Það yrði mikil blessun ef þetta frumvarp gengi fram.