146. löggjafarþing — 43. fundur,  13. mars 2017.

afnám fjármagnshafta, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra.

[16:02]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér ákveðin tímamót í sögu endurreisnar íslensks efnahagslífs eftir hrunið í október 2008. Gjaldeyrishöftum sem hægt er að aflétta án lagabreytinga verður aflétt á miðnætti í nótt. En þrátt fyrir efstastigsyfirlýsingar fjármálaráðherra eru þetta ekki mestu tíðindin sem átt hafa sér stað varðandi afnám hafta, hér urðu til að mynda tíðindi um áramótin er vörðuðu fjármál almennings enn frekar en þau sem boðuð voru hér í gær. Þrátt fyrir tíðindi gærdagsins fyrir íslenskan fjármálamarkað og efnahagslíf eru þó ýmis atriði óljós varðandi afnám hluta gjaldeyrishafta ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans.

Frú forseti. Sumir hafa kallað þessa afléttingu „megadíl“, svo að ég leyfi mér að sletta í ræðustól Alþingis. Þó eru fleiri sem hafa haft uppi efasemdir um að svo sé, sér í lagi þegar horft er til misheppnaðs aflandskrónuútboðs Seðlabanka Íslands í júní í fyrra. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra þyki það útboð hafa verið enn eitt útboðið er til upprifjunar rétt að geta þess að það var aflandskrónuútboð sem var notað sem ein meginafsökun þáverandi ríkisstjórnar fyrir því að fresta þingkosningum síðastliðið vor fram á haust vegna Wintris-málsins. Meiri hluti aflandskrónueigenda neitaði að taka þátt í því útboði á þeim kjörum sem Seðlabankinn bauð sem var að borga 190 kr. fyrir hverja evru. Vogunarsjóðir í hópi aflandskrónueigenda neituðu að taka því þrátt fyrir digurbarkalegar hótanir íslenskra stjórnvalda um að ef aflandskrónueigendur tækju ekki þeim kjörum yrði um afarkosti að ræða. Útboðið varð misheppnað, misheppnað fyrir íslenska ríkið og hagsmuni þess.

Ákvörðun aflandskrónueigenda um að bíða pollrólegir eftir betra tilboði virðist hafa verið hárrétt, enda gengu háttsettir menn úr íslenskri stjórnsýslu á þeirra fund í New York. Ljóst er að sá fundur var meðal meginástæðna fyrir því að núverandi losun hafta varð að veruleika, ásamt auðvitað myndarlegum gjaldeyrisforða. Það er því komið á hreint að aflandskrónueigendur hafa hagnast um 38% á því að bíða eftir samkomulagi við íslensk stjórnvöld og greiða nú samkvæmt því, 137,5 kr. fyrir hverja evru. Þetta getur varla talist til „megadíla“.

En þá er eftir spurningin um þá aflandskrónueigendur sem ekki eru hluti af þessu samkomulagi nú, heldur fóru út á mun verri kjörum. Er það algjörlega skýrt að engin lagaleg eftirmál verða af þeirra hálfu, að þeir aflandskrónueigendur muni ekki leita réttar síns nú þegar íslenska ríkið hefur boðið vogunarsjóðum í Bandaríkjunum mun betra tilboð? Ég velti því líka fyrir mér hver sé staða þeirra sem eftir sitja nú, þeirra eigenda 105 milljarða kr. sem hafa ekki tekið núverandi tilboði ríkisstjórnarinnar.

Ef til vill er búið að opna á spákaupmennsku í boði ríkisstjórnarinnar. Bíða þeir aflandskrónueigendur ekki enn frekar og taka út enn meiri gengishagnað ef þeim býðst um leið og opnast fyrir þá möguleiki?

Frú forseti. Afnám eða losun hafta er ekki að gerast hér með einu pennastriki. Hér hefur átt sér stað vinna að því markmiði um árabil, en því miður hefur sú vinna undir stjórn síðustu ríkisstjórnar og þeirrar núverandi verið, og á greinilega að vera áfram, unnin í einhvers konar gervisamráði án alvörusamráðs við fulltrúa allra flokka á Alþingi, án alvörusamráðs við stjórnarandstöðuna. Það er nauðsynlegt að þessi vinna sem skiptir okkur öll máli með einum eða öðrum hætti verði unnin í opnara ferli og í meira samráði og í samvinnu. Á sama tíma og núverandi ríkisstjórn tilkynnti digurbarkalega um losun hafta í gær var tilkynnt um skipan verkefnisstjórnar um endurskipulagningu peningastefnunnar. Það er algjörlega nauðsynlegt að trúnaður og traust ríki um störf þeirrar nefndar og að Seðlabanki Íslands tryggi með öllum tiltækum ráðum að í henni sitji nefndarfólk sem geti axlað þá ábyrgð á heiðarlegan hátt með engar tengingar við efnahagslífið sem geta dregið úr trausti og trúnaði á störf hennar og ákvarðanir. Færi ekki vel á því að fá tilnefningu frá þingminnihlutanum í þessa verkefnisstjórn?

Batnandi efnahagsaðstæður hérlendis og mikil styrking krónunnar hefur gert að verkum að erfiðara og erfiðara hefur verið að réttlæta sérstakar lagasetningar gagnvart einum hópi. Þá spyr ég, frú forseti: Hver er sýn hæstv. fjármálaráðherra varðandi stöðu krónunnar? Hæstv. ráðherra talaði fjálglega um að gengi krónunnar verði nú stöðugra. Hvað hefur hann fyrir sér í þeim efnum þegar enginn hagfræðingur né seðlabankastjóri treystir sér til að spá neitt fyrir um stöðu krónunnar? Eftir hvaða sviðsmyndum er verið að vinna varðandi gengisstyrkinguna og vaxtastigið? Þetta þarf að upplýsa út frá hagsmunum almennings og viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Frú forseti. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil við núverandi aðstæður í hagkerfinu, spennan er áþreifanleg og mikill agi þarf að vera til staðar við stjórn efnahagsmála við þær aðstæður sem endranær. Staða krónunnar er viðkvæm og það er engum til happs að hér verði miklar sveiflur eða gengisfall á krónunni. Það er þá sem reynir á aga og traust og heiðarleika í hagstjórn.