146. löggjafarþing — 44. fundur,  20. mars 2017.

samskipti ríkisins við vogunarsjóði.

[15:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta við nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra.

Er það hans mat að kaup erlendra vogunarsjóða séu til þess fallin að auka trú almennings á Íslandi á bankakerfinu?

Telur hæstv. fjármálaráðherra að með þessu sé eignarhald á Arion banka gagnsætt?

Í ljósi orða ráðherrans hér fyrr í umræðum: Telur ráðherra að þessi sala falli undir vönduð vinnubrögð? Er þetta það að vanda sig?

Ég vil ítreka spurninguna sem ég spurði hér áðan: Verða erlendir sjóðir jafn velkomnir fjárfestar þegar kemur að sölu á ríkisbönkum? Verður það einnig talið styrkleikamerki og tímamót?

Ég verð að lýsa því yfir hér, frú forseti, að það er mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu í ljósi alls sem gerst hefur í samskiptum við aðila sem vilja fjárfesta á Íslandi (Forseti hringir.) en að kaupendur hafi orðið sér út um blessun yfirvalda áður en var gengið til kaupanna. Það kaupir enginn banka (Forseti hringir.) á Íslandi eða erlendu landi án þess að ráðfæra sig við yfirvöld. Það virðist af svörum ráðherrans (Forseti hringir.) að þetta sé í samræmi við svokallaða eigandastefnu stjórnvalda. Vill ráðherrann bregðast við því?