146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það voru áhöld um hvort ég ætti yfir höfuð að vera í þessum ræðustól. Í morgun, skömmu eftir átta, barst mér tilkynning um það að ég hefði verið númer 27 í röð hv. þingmanna að komast hér á mælendaskrá. Síðan fóru nú einhverjir vísir menn að skoða málið nánar og þá kom í ljós að allmargir af þeim sem á undan mér voru á skránni höfðu tilkynnt sig inn laust fyrir klukkan átta. Var gerð við þetta athugasemd sem endaði með því að öllu var raðað upp á nýtt og ég þurfti að fara að undirbúa að nýju hvað ég ætlaði að tala um. Ég ákvað að tala um þetta, um störf þingsins og um þessar sérstöku aðstæður sem við búum við, að klukkan 8:00 sitja starfsmenn þingflokkanna og senda tölvupóst, sumir handvirkt, aðrir með tölvukerfum, sumir samkvæmt atómklukkum í Sviss, skilst mér, til þess að vera örugglega á réttum tíma, eða einhverjum svona brögðum — eða brögðum, eru bara laga sig að leikreglunum.

Mér finnst þetta algjörlega fráleitt fyrirkomulag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég held að það sé kominn tími til að yfirstjórn þingsins taki þetta til skoðunar í góðri samvinnu við þingið og þingflokksformennina og finni upp eitthvert kerfi þar sem þessu verður deilt út með sanngjörnum hætti, einhvers konar kvótakerfi eða a.m.k. einhvers konar öðru kerfi sem við getum öll verið sæmilega sátt um. Mér finnst þetta ekki vera góð vinnubrögð þótt það sé gaman að senda tölvupóst og tímasetja hann. Ég var lengi að finna út hvernig ég gæti stillt minn tölvupóst. Ég fann út úr því fyrir rest en sendi þá á vitlaust netfang þannig að það gagnaðist mér ekki. Ég beini því til hæstv. forseta að skoða þessi mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)