146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

kosningar til sveitarstjórna.

258. mál
[18:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek kærlega fyrir svarið. Ég held að það sé mjög táknrænt og jákvætt varðandi þróunina í íslensku samfélagi, varðandi fjölbreytnina, að frumvarpið endurspeglar uppruna forseta og 1. flutningsmanns málsins. Ég held að það sé mjög jákvætt.

Það sem verið er að benda á hér, og þingmaðurinn ítrekaði í framsögu sinni, er að erlendir ríkisborgarar eru orðnir um 8% allra íbúa Íslands. Ef við tökum síðan innflytjendur af annarri kynslóð, sem eiga hugsanlega annað foreldrið af erlendum uppruna, erum við komin í töluvert hærri tölu.

Það er líka annað sem er svo mikilvægt: Ég tel að við Íslendingar höfum að mörgu leyti ekki staðið okkur sérstaklega vel í að efla og styðja við fólk af erlendum uppruna þegar það kemur hingað til lands. En eitt höfum við þó gert vel og það tengist bara okkar menningu, þ.e. að meginþorri þess fólks sem kemur, fullorðins fólks, er virkt á vinnumarkaðnum. Það hefur líka sýnt sig, þegar tölur hafa verið skoðaðar aftur í tímann, að erlendir ríkisborgarar hafa einmitt aukið landsframleiðsluna, skilað verulegum verðmætum inn í samfélagið. Þar af leiðandi er hann réttur rökstuðningurinn sem hv. þm. Pawel Bartoszek fór hér í gegnum: Að sjálfsögðu eiga þeir hinir sömu þá að geta, sem skattgreiðendur og sem einstaklingar sem leggja mjög mikið fram til samfélagsins, haft eitthvað að segja um það hvernig samfélagið er mótað.