146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

rekstur Klíníkurinnar.

[10:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina og sköruglega ræðu. Það er ánægjulegt að heyra vitnað í sjálfan sig og mjög gaman að heyra hvað ég hef verið fljúgandi mælskur og talað gáfulega í desember. Ég vil nota tækifærið til að taka fullkomlega undir með sjálfum mér og standa við þær fullyrðingar sem komu fram í ræðu minni 22. desember. Stefna Bjartrar framtíðar er jákvæð gagnvart fjölbreyttu rekstrarformi en er það ekki gagnvart gróðavæðingu eða stórkostlegri einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Eins og ég hef sagt margoft opinberlega og hér í þessum ræðustól eftir að ég varð ráðherra heilbrigðismála mun ég ekki standa fyrir einkavæðingu eða stórkostlegri breytingu í fyrirkomulagi heilbrigðiskerfisins án þess að á undan sé gengin stórkostleg heildstæð stefnumörkun um slíkt. Það er ekki í farvatninu svo ég viti.

Þingmaðurinn spyr mig um fyrirhugaðan og yfirvofandi sjúkrahúsrekstur í Ármúla. Ég verð að segja það sem ráðherra heilbrigðismála að þessi yfirvofandi sjúkrahúsrekstur kemur mér á óvart. Ég veit ekki til þess að hann sé í farvatninu. Klíníkin er starfsemi sem hefur hlotið vottun landlæknisembættisins um að aðstaðan bjóði upp á heilmikla þjónustu en þar fara fram aðgerðir og þjónusta í samræmi við rammasamning heilbrigðisráðuneytisins við Læknafélag Reykjavíkur eins og á fjölmörgum öðrum starfsstöðvum sérfræðinga. Það er ekki í farvatninu að breyta því fyrirkomulagi, þvert á móti. Eða ekki þvert á móti, það er bara ekki í farvatninu að breyta því fyrirkomulagi.

Þannig að hvað varðar stórkostlegar fréttir og tilvitnanir í aðila um að það séu í farvatninu miklar breytingar: Ég er mjög ánægður með að geta staðið hérna og (Forseti hringir.) dregið þær fréttir til baka. Ég sem ráðherra málanna kannast ekki við þær.