146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

272. mál
[12:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 379, sem er 272. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald.

Frumvarpið hefur yfirsögnina: Öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Við þingmenn höfum hér á göngunum kallað þetta frumvarpið um þang og þara, og höfum haft svolítið gaman af, enda mikilvægt frumvarp, sérstaklega fyrir ákveðið landsvæði hvað varðar atvinnumál.

Frumvarp þetta var flutt af forvera mínum á 145. löggjafarþingi en ekki útrætt við þinglausnir. Það var engu að síður tekið til efnislegrar meðferðar af hv. atvinnuveganefnd sem lagði til nokkrar viðbætur við það með atbeina míns ráðuneytis. Ég mun víkja að þeim viðbótum hér á eftir en tel fyrst rétt að fjalla almennt um málið og meginþætti þess sem frumvarpið mælir fyrir um.

Frú forseti. Með frumvarpinu er lagt til að settar verði reglur um það sem í frumvarpinu er nefnt öflun sjávargróðurs. Með því er átt við slátt á þangi og öflun á þara. Við þekkjum að landið okkar á margar guðsgjafir, sem betur fer. Alls staðar þar sem klettar, klappir og stórgrýti kemur upp úr sjó í fjöru við Ísland þar vex sjávargróður. Íslendingar hafa nýtt sér þang frá upphafi Íslandsbyggðar og við munum hvernig Þorgerður Egilsdóttir lék á Egil föður sinn Skallagrímsson með því að gefa honum söl til að tyggja. Oft munu gömul Saurbæjar-söl hafa verið bjargráð fyrr á öldum. Við þekkjum að í fornlögum okkar eru heimildir um meðferð og nýtingu sölva og annars sjávargróðurs.

Fyrir meira en hálfri öld hófst undirbúningur að því að skoða möguleika á nýtingu sjávargróðurs til iðnaðar við Ísland. Síðar, snemma á 8. áratugnum, var sett upp sérhæfð verksmiðja til þurrkunar á sjávargróðri á Reykhólum á Reykjanesi í Reykhólahreppi. Til þess að þróa aðferðir við slátt á þangi og þara, söfnun, löndun og auðvitað vinnslu eða þurrkun hráefnisins, þurfti að þróa ákveðnar aðferðir. Þær hafa gefist ágætlega, en þróunin hefur verið töluverð. Verksmiðjan á Reykhólum er enn starfrækt og mun rekstur hennar með nokkrum ágætum nú um stundir þótt ýmislegt hafi gengið á í gegnum tíðina enda um að ræða fremur sérhæfða afurð sem stundum hefur gengið hræðilega að afsetja. Verksmiðjan er langmikilvægasta fyrirtækið á Reykhólum og má segja að hún haldi þorpinu þannig uppi að nokkru leyti þótt önnur fyrirtæki séu nú í kjölfarið að ryðja sér til rúms.

Margt hefur breyst með tímanum frá því að fremur var talið til skaða fyrir bújarðir að þar væri jarðhiti sem skapað gæti hættu fyrir búpening. Það er langt síðan það var. Auðvitað var það jarðhitinn á Reykhólum, þessu gamla höfuðbóli Guðmundar Arasonar, sem var undirstaða þess að verksmiðja reis þar. Færibandaþurrkari sem notaður er til að vinna mjöl úr þanginu og úr þaranum var þróaður af íslenskum aðilum á sínum tíma með aðstoð Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins og reyndist svo vel að hann var fyrirmynd að yfir 20 þurrkurum sem notaðir eru víða um land til þurrkunar á þorskhausum.

Þá er einnig ánægjulegt að sjá að fyrir stuttu var sett á fót verksmiðja við hlið Reykhólaverksmiðjunnar sem vinnur salt úr Breiðafirði og notar einmitt til þess affallsvatn úr verksmiðjunni sjálfri. Þetta rímar vel við markmið okkar Íslendinga um að nýting náttúruauðlinda eigi að vera sjálfbær og leita sér leiða til aukinnar verðmætasköpunar.

Það virðist svo að með tækniframförum og hagnýtingu líftækni séu að myndast nýir og auknir möguleikar til verðmætasköpunar úr þörungum. Þetta má meðal annars sjá af því sem kom fram á nýlegu málþingi um strandbúnað, sem var hér um daginn á Grand Hótel, þ.e. að frá árinu 2012 hefur að meðaltali verið stofnað eitt nýtt fyrirtæki á ári sem ræktar eða aflar þörunga úr náttúrunni til iðnaðarframleiðslu. Það eru mörg tækifæri til vaxtar og aukinnar verðmætasköpunar á grundvelli auðlinda hafsins. Hver veit nema þörungavinnsla verði enn stærri atvinnuvegur á Íslandi að nokkrum árum og áratugum liðnum.

Ég vil sérstaklega geta þess í þessu sambandi að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið að mótun lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland, þ.e. hvernig stjórnvöld, atvinnulífið og borgararnir geta eflt lífhagkerfi hér á landi. Þessi þróun er í góðu samræmi við áherslur lífhagkerfisstefnunnar.

Þýðingarmesta hráefni verksmiðjunnar á Reykhólum hefur frá upphafi verið klóþangið sem heitir á latínu ascophyllum nodosum — þetta er svipað og í Harry Potter, svei mér þá. Jafnframt hefur þá þari verið nýttur, en klóþangið, eins og ég gat um, er það allra mikilvægasta í þessu. Um er að ræða tvær tegundir af sjálfum þaranum, það er annars vegar hrossaþarinn og síðan stórþarinn. Þá er ljóst að einnig er nokkuð tekið af öðrum tegundum sjávargróðurs samhliða töku þessara tegunda, sem ef til vill má kalla meðafla, svo að notað sé hugtak sem við þekkjum mjög vel úr fiskveiðilöggjöfinni okkar.

Klóþangið er síðan sú tegund sem er uppistaðan í þangmjölsframleiðslu, bæði hér á Íslandi og í öðrum löndum þar sem sambærileg starfsemi er stunduð, t.d. í Noregi, í Kanada og á Bretlandseyjum. Það er engin tilviljun að reynsla er af slætti þangs í Breiðafirði, en þar fer saman einstakt landslag, fjöldi skerja, flesja og eyja sem skapa mjög víðlenda strandlengju um leið og mikill munur er á flóði og fjöru. Þetta gerir að verkum að mjög verulegt magn þangs er í firðinum. Þarinn er hins vegar tekinn frekar utarlega í Breiðafirði með svonefndri togkló sem grípur hann, enda vex hann á mun meira dýpi.

Það er rakið í skýringum með frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir — og ég mæli með því að menn lesi greinargerðina, hún er áhugaverð aflestrar og full af skemmtilegum fróðleik og fróðleiksmolum — að öflun þangs og þara í Breiðafirðinum hefur til þessa ekki lotið beinu eftirliti eða stjórn opinberra aðila. Þannig hafa engar reglur verið settar um til að mynda sláttubúnað eða öflunartæki, skráningu afla eða meðferð hans. Ætla má að ekki hafi fram að þessu verið talin ástæða til að setja slíkar reglur. Við eigum í raun ekki að setja svona reglur nema ástæða sé til.

Þangsláttur hefur farið fram í samráði við fjörueiganda á hverjum stað, en þangið vex aðeins í fjörunni og þar með innan netlaga sjávarjarðanna. Verksmiðjan á Reykhólum mun lengst af hafa leigt sláttupramma sína til sjálfstæðra verktaka sem hafa síðan öðlast mikla þekkingu á einstökum sláttusvæðum.

Á síðustu missirum hefur hins vegar orðið vart við aukinn áhuga á nýtingu þangs og þara og virðist sá áhugi að mestu eða öllu bundinn við Breiðafjörð. Hið minnsta tveir aðilar hyggjast hefja slíka starfsemi á næstunni eins og meðal annars hefur komið fram í fjölmiðlum. Líklegt virðist að þessi aukni áhugi tengist góðum markaðsaðstæðum, en aukin eftirspurn virðist eftir þörungum til notkunar í alls kyns iðnaði, meðal annars sem svonefnd hleypiefni og íblöndunarefni í áburði. Ýmsar þörungaafurðir eru ákjósanlegar til að bæta bragð, bæta útlit og hollustu matvara og einnig er aukin eftirspurn eftir þeim í líftækni og jafnvel til heilsubótar eða til lækninga.

Þessi aukni áhugi á nýtingu knýr á um stjórnun náttúruauðlinda og ákveðinna viðbragða af hálfu löggjafans. Með frumvarpinu er lagt til að rannsóknir á sjávargróðri verði efldar samtímis því að öflun á þangi og þara verði felld undir ákvæði laga á sviði fiskveiðistjórnunar, meðal annars um útgáfu leyfis til öflunar, færslu afladagbókar, skráningu og vigtun á afla og greiðslu veiðigjalds. Að auki er lagt til að móttaka þangs til vinnslu verði háð leyfi, en það er nýmæli sem byggir á tillögum atvinnuveganefndar frá síðasta löggjafarþingi. Samráð hefur verið haft við alla helstu hagsmunaaðila við undirbúning þeirra nýmæla.

Í frumvarpinu felst með þessu allumfangsmikil heimild til stjórnunar við öflun sjávargróðurs eins og nánar er fjallað um í skýringum með frumvarpinu. Hafrannsóknastofnun hefur lengi stundað þörungarannsóknir, en vegna þess aukna áhuga sem er á nýtingu þangs við Íslands hóf stofnunin sjálfstæða rannsókn á útbreiðslu og lífmassa þangs við Breiðafjörð síðastliðið vor. Jafnframt var horft til vistkerfisþátta í rannsókninni. Niðurstaðna úr rannsókninni er að vænta um mánaðamótin mars/apríl og munu þær vonandi nýtast hér við þinglega meðferð þessa máls og forstöðumenn Hafrannsóknastofnunar og vísindamenn munu þá vonandi koma fyrir hv. atvinnuveganefnd til að fara yfir niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Í fáum orðum er meginefni frumvarpsins það að verið er að leggja til að Hafrannsóknastofnun verði falið að stunda rannsóknir á sjávargróðri og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu. Það er verið að leggja til að öflun þangs og þara verði felld undir eftirlit samkvæmt fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Það er verið að leggja til að móttaka þangs til vinnslu frá afmörkuðum svæðum verði háð leyfi og að lagt verði veiðigjald á landaðan afla þangs og þara.

Frú forseti. Þetta voru helstu meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu er meðal annars gefið yfirlit um áhrif þess á fjárhag ríkissjóðs. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu, en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.