146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

270. mál
[14:43]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga. Hún hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort unnt sé að skipta útsvarstekjum milli tveggja sveitarfélaga.

Ráðherra hafi samráð við ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál og Samband íslenskra sveitarfélaga.“

Í greinargerð kemur eftirfarandi fram:

„Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga.

Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett. Jafnvel getur verið um það að ræða að dvalið sé drjúgan hluta ársins á viðkomandi jörð eða í frístundahúsi og þá myndast oft krafa eða vænting um tiltekna þjónustu frá því sveitarfélagi þar sem jörð eða frístundahús er staðsett. Sem dæmi má nefna óskir um snjómokstur og ýmsa aðra þjónustu.

Flutningsmenn telja brýnt að kanna hvort unnt sé að leita leiða til að bregðast við framangreindri áskorun.“

Auk þess langar mig að benda á hluti sem snúa að sveitarfélögunum. Mörg sveitarfélög standa frammi fyrir því að stór hluti jarða í sveitarfélaginu hefur verið seldur til einstaklinga sem ekki búa á staðnum. Af sölunni fær sveitarfélagið engar tekjur því að af því er greiddur fjármagnstekjuskattur. Oft og tíðum kaupa menn þessar jarðir vegna hlunninda. Af hlunnindunum fara heldur engar tekjur til sveitarfélagsins. Þær fara til ríkisins. En margir af þessum eigendum, og ég hef heyrt á tal þeirra, vilja gjarnan vera meiri þátttakendur í samfélögunum þar sem þeir kaupa jarðir eða hús og eru stóran hluta af árinu.

Ég vona að þetta mál fái hér framgang.

Auk mín eru á þessu máli hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar I. Guðmundsson, Einar Brynjólfsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Að lokinni umræðu legg ég til að málið gangi til umhverfis- og samgöngunefndar.